Íslenski boltinn

Berglind fær samkeppni frá Ítalíu um markmannstöðu Stjörnuliðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Berglind Hrund Jónasdóttir.
Berglind Hrund Jónasdóttir. Vísir/Hanna
Stjarnan hefur fengið leikheimild fyrir ítalska markvörðinn Sabrinu Tasselli og mun hún klára tímabilið með Stjörnuliðinu í Pepsi-deild kvenna og Borgunarbikar kvenna.

Fótbolti.net segir frá nýjasta leikmanninum í Garðabæjarliðinu en Sabrina má spila með Stjörnunni á móti FH í kvöld alveg eins og íslenska landsliðskonan Anna Björk Kristjánsdóttir sem kemur á láni frá sænska liðinu Örebro.   

Sabrina Tasselli er 26 ára gömul og 175 sm á hæð. Hún lék síðast með Riviera di Romagna og á að baki einn landsleik fyrir Ítalíu.  

Stjarnan er í öðru sæti í Pepsi-deildinni, einu stigi á eftir toppliði Blika og mætir Breiðabliki í undanúrslitum Borgunarbikar kvenna um næstu helgi.

Stjarnan virtist ætla að veðja á hina tvítugu Berglindi Hrund Jónasdóttur eftir að Sandra Sigurðardóttir fór í Val en nú hefur Garðbæjarliðið náð sér í reyndari markvörð.

Berglind Hrund Jónasdóttir gerði mistök sem kostaði mark í mikilvægum leik á dögunum þegar Stjarnan tapaði 1-0 á móti Breiðabliki og missti toppsætið til Blika.

Berglind Hrund Jónasdóttir hefur aðeins fengið á sig 4 mörk í 8 leikjum í Pepsi-deildinni en þrjú þeirra hafa komið í síðustu tveimur leikjum liðsins. Fram að því hafði Berglind Hrund haldið hreinu í fimm af sex fyrstu leikjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×