Handbolti

Sigur á silfurliðinu frá HM og íslenska liðið komið áfram

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði fimm mörk gegn Slóvenum.
Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði fimm mörk gegn Slóvenum. mynd/hsí
Ísland vann frábæran fjögurra marka sigur, 23-19, á Slóveníu á EM U-20 ára landsliða í handbolta í kvöld.

Íslenska liðið hefur þar með unnið báða leiki sína í B-riðli og er komið áfram í milliriðil. Ísland mætir Spáni í hreinum úrslitaleik um efsta sætið í B-riðli klukkan 18:00 á sunnudaginn.

Íslensku strákarnir spiluðu miklu betri varnarleik en gegn Rússum í gær og það lagði grunninn að sigrinum á sterku liði Slóvena.

Slóvenía endaði í 2. sæti á HM U-19 ára landsliða í fyrra en Slóvenar voru eina liðið vann Ísland á HM í Rússlandi í fyrra. Íslenska liðið endaði í 3. sæti á því móti eftir sigur á Spánverjum í leiknum um bronsið.

Ísland var allan tímann með undirtökin í leik kvöldsins þótt aldrei hafi munað miklu á liðunum.

Staðan var 10-7 í hálfleik, Íslandi í vil, og strákarnir byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og komust fljótlega í 15-10.

En slök nýting á dauðafærum hleypti Slóvenum inn í leikinn. Þeim tókst þó aldrei að jafna né komast yfir.

Íslenska liðið reyndist svo sterkara á lokasprettinum og landaði glæsilegum sigri. Lokatölur 23-19, Íslandi í vil.

Óðinn Þór Ríkharðsson var markahæstur í íslenska liðinu með fimm mörk en þeir Hákon Daði Styrmisson, Elvar Örn Jónsson og Arnar Freyr Arnarsson komu næstir með þrjú mörk hver. Grétar Ari Guðjónsson átti skínandi leik í markinu og varði 15 skot.

Mörk Íslands:

Óðinn Þór Ríkharðsson 5, Hákon Daði Styrmisson 3, Arnar Freyr Arnarsson 3, Elvar Örn Jónsson 3, Sturla Magnússon 2, Sigtryggur Rúnarsson 2, Kristján Örn Kristjánsson 1, Aron Dagur Pálsson 1, Ómar Ingi Magnússon 1, Birkir Benediktsson 1, Leonharð Harðarson 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×