Íslenski boltinn

Selfoss rúllaði yfir Leikni | Haukar með annan sigurinn í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Selfyssingar eru taplausir í síðustu sex deildarleikjum sínum.
Selfyssingar eru taplausir í síðustu sex deildarleikjum sínum. vísir/hanna
Fjórtánda umferð Inkasso-deildar karla hófst í kvöld með tveimur leikjum.

Selfyssingar gerðu góða ferð í Breiðholtið og unnu óvæntan 0-3 sigur á Leikni R.

Með sigrinum komst Selfoss upp í 5. sæti deildarinnar en liðið er aðeins fimm stigum frá 2. sætinu.

Leiknismenn eru enn í 3. sætinu þrátt fyrir að hafa tapað tveimur leikjum í röð. Keflvíkingar geta komist upp fyrir Breiðhyltinga með sigri á Fjarðabyggð á laugardaginn.

James Mack kom Selfyssingum yfir strax á 5. mínútu eftir langt innkast og skalla Andy Pew. Ivan Martinez Gutierrez skoraði annað mark gestanna á 38. mínútu og fjórum mínútum síðar vænkaðist hagur þeirra enn frekar þegar Leiknismaðurinn Halldór Kristinn Halldórsson fékk að líta rauða spjaldið.

Ingi Rafn Ingibergsson gulltryggði svo sigur Selfyssinga þegar hann skoraði þriðja mark þeirra á 67. mínútu. Lokatölur 0-3, Selfossi í vil.

Haukar eru komnir upp í 7. sæti Inkasso-deildarinnar.vísir/eyþór
Haukar unnu sinn annan leik í röð þegar þeir fengu Fram í heimsókn. Lokatölur 3-1, Haukum í vil sem komust þar með upp fyrir Frammara í deildinni.

Elton Renato Livramento Barros kom Haukum í 1-0 eftir aðeins sjö mínútna leik og þannig var staðan í hálfleik.

Ivan Bubalo jafnaði metin á 63. mínútu en Aran Nganpanya var fljótur að koma Haukum aftur yfir þegar hann skoraði sitt fyrsta mark í sumar á 67. mínútu. Aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Barros sitt annað mark og sá til þess að Haukar fengu öll þrjú stigin.

Haukar eru nú í 7. sæti deildarinnar með 17 stig en Fram er í sætinu fyrir neðan með 16 stig.

Upplýsingar um úrslit og gang leiksins eru fengnar frá Úrslit.net og Fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×