Glamour

Antonio Banderas í fatahönnunarnámi við Central Saint Martins

Andri Ólafsson skrifar
Það er ekkert nýtt að stærstu fatamerki í heimi stofni til samstarfs við súperstjörnur um hönnun á fatalínum. H&M hefur líklega náð hvað mestum árangri hvað þetta varðar með samstarfi sínu við hönnuði á borð við Karl Lagerfeld, Stellu McCartney og David Beckham. Nú hefur fatamerkið Selected hannað línu í samstarfi við Hollywood-stjörnuna Antonio Banderas.

Glamour sendi útsendara sinn, Andra Ólafsson, til London nýlega til að kynna sér afraksturinn en viðtalið í heild sinni má lesa í ágústblaðinu, sem kom út í dag.

Á Rosewood-hótelinu í London hafa tvö ­herbergi verið útbúin fyrir röð af viðtölum sem eru skipulögð í tilefni af nýju fatalínunni hans Antonio Banderas. Fatalínan er framleidd af Selected en hönnuð í samstarfi við þennan heims­kunna spænska leikara sem heimurinn kynntist fyrst í Almod­ovar-myndum en sló svo í gegn í Hollywood. Zorro, From Dusk Till Dawn og svo framvegis.  

Banderas flakkar sjálfur á milli herbergj­anna og gefur tuttugu mínútna viðtöl í hvert skipti. Á meðan Banderas situr og spjallar í einu herberginu sér her starfsmanna frá Bestseller, sem er móðurfyrirtæki Selected, um að hitt herbergið sé klárt fyrir næsta viðtal. Þannig gengur þetta koll af kolli þangað til röðin er komin að okkur. 

„Sæll, herra Banderas, þakka þér fyrir að gefa þér tíma fyrir okkur,“ segi ég og rétti fram höndina. Banderas heilsar kumpánlega og hlammar sér niður í stólinn fyrir framan mig.

Hann er lítill. Það er það fyrsta sem maður tekur eftir. Eins og allar kvikmyndastjörnur í Hollywood virðast vera. Ekki meira en 170 cm. En augljóslega sjarmerandi maður, viðkunnanlegur.  Við spjöllum aðeins um Ísland en hann hefur nokkrum sinnum komið hingað til landsins og lýsir því að hann hafi mikinn áhuga á að eyða meiri tíma á Íslandi í framtíðinni, til að fara á skíði, jafnvel fjallaskíði.

„Mjög sérstakt landslag, ég verð að eyða meiri tíma á landinu næsta þegar ég kem,“ lofar hann.  

Því næst tölum við um föt. Banderas er augljóslega stoltur af fata­línunni sinni. Hann virðist hafa tekið hönnunarferlið alvarlega. Það skiptir hann miklu máli að ég viti að hann sé ekki að lána nafnið sitt eða ímynd að gamni sínu. Ég hallast að því að trúa honum.  Aðalástæðan er sú að Banderas skráði sig og hóf nám í Central Saint Martin skólanum í London eftir að hann hand­salaði samn­inginn um samstarf við Bestseller og Selected.

Saint Martin er einn virtasti hönnunarskóli í heimi. Stella McCartney lærði þar. Og gríska vinkonan hans Jarvis Cocker í Pulp sem hann söng um í Common People. She came from Greece she had a thirst for knowledge. She studied sculpture at Saint Martin’s College, that's where I caught her eye.

Andri Ólafsson og Antonio Banderas spjalla í London fyrr í sumar.
Það að fimmtugur leikari, súperstjarna og milljarðamæringur, sem á einkaflugvél sem hann millilendir í Keflavík, skrái sig í skóla á gamalsaldri, til þess að hafa betri skilning á hönnunarferlinu, segir manni ýmislegt. Hann gæti slakað á og talið peningana sem hann fær fyrir samninginn. En vill heldur hella sér í verkefnið á sama hátt og hann gerir jafnan fyrir hlutverk.

Þetta er method acting. „Allt sem ég geri í lífinu geri ég af lífi og sál. Ef ekki, til hvers að standa í þessu?“ útskýrir Banderas.

Easy money? „Já, en þetta er mitt eigið verkefni. Ég er partner með Bestseller í þessu. Ef við vinnum, ef verkefnið gengur vel, vinna báðir. Ef við töpum, tapa báðir,“ svarar Banderas. „Ég er hógvær almennt þegar talið berst að því sem ég hef áorkað. En ég er ekki hógvær þegar kemur að vinnusemi minni og úthaldi. Tímanum sem ég ver í verkefni.“

Viðtalið í heild sinni má lesa í nýjasta tölublaði Glamour en við mælum með því að rúlla við í verslunum Selected í Kringlunni eða Smáralind og berja fatalínu leikarans fræga augum. 






×