Íslenski boltinn

Hermann: Öll heilbrigð skynsemi farin úr leiknum

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
vísir/ernir
„Svekkjandi að taka engan punkt miðað við frammistöðu. Frammistaðan var mjög góð,“ sagði Hermann Hreiðarsson þjálfari Fylkis eftir 3-2 tapið gegn FH í kvöld.

„Skyndisóknirnar voru vel útfærðar. Baráttan góð og skipulagið. Það gekk upp sem við vorum að reyna að gera, að fá þá í lengri bolta og fyrirgjafir. Það gekk vel að verjast því.

„Svo veit maður ekki hvað gerist í öðru markinu, það var smá kjaftshögg. Maður tekur fullt af jákvæðum punktum út úr þessu. Þetta var gríðarlega flott frammistaða. Meira er ekki hægt að biðja um,“ sagði Hermann.

Fylkir barðist hetjulega í leiknum en varð fyrir áfalli í lokin þegar Ásgeir Börkur Ásgeirsson fyrirliði liðsins fékk beint rautt spjald þegar boltinn fór í höndina á honum í teignum á síðustu mínútu leiksins.

„Það skiptir alltaf öllu máli hvernig maður labbar útaf vellinum, hvort maður geti borið höfuðið hátt eða ekki og við getum það. Þetta var flott frammistaða og fúlt að hafa ekki fengið neitt út úr því.

„Það er öll heilbrigð skynsemi farin úr leiknum ef þetta er rautt spjald. Þetta er bara víti. Þetta var á síðustu sekúndunum í leiknum og þetta var ekki viljandi. Hann hendir sér einhvern vegin og þetta fer í höndina.

„Reglur og bækur og eitthvað en notaðu skynsemina og þá er þetta í lagi. Auðvitað er hann bara óheppinn að fá hann í höndina. Hann hendir sér fyrir og þetta gerist á fullum hraða. Þetta er rándýrt fyrir okkur,“ sagði Hermann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×