
María segir að ýmsir þættir hafi orsakað það að færri farþegar sóttust eftir því að fljúga til Egilsstaða frá London. „Í ár voru til dæmis opnaðar fleiri leiðir frá Bretlandi til Keflavíkur, m.a. frá Manchester og Birmingham. Þannig að aðilar þaðan voru kannski ekki að fara að fljúga til Íslands á nýjan áfangastað frá London þar sem þeir gátu notað velli nær þeim. Síðan féll pundið og það hafði sín áhrif,“ segir María sem telur þó að mikilvægt skref hafi verið stigið í sumar til að efla Egilsstaðaflugvöll.
Það var breska fyrirtækið Discover the World sem skipulagði flugferðirnar, en ferðaþjónustufyrirtækin Tanni Travel á Eskifirði og Fjallasýn á Húsavík önnuðust sölu þeirra hér á landi. Þá unnu starfsmenn Austurbrúar að markaðsmálum í þágu flugsins á grunni sóknaráætlunar landshluta fyrir Austurland. María segir að sú vinna muni nýtast öðrum flugrekstraraðilum sem hafa áhuga á að fljúga til og frá Egilsstöðum.
Ekki er ljóst hvort framhald verður á millilandafluginu, en viðræður standa nú yfir við Discover the World og fleiri aðila. „Það er verið að skoða flug strax í apríl fyrir skólahópa, en það er ekki 100 prósent staðfest. Einnig er verið að skoða sams konar flug í október næsta ári. Allt annað er í skoðun,“ segir María.
„Það er fullur stuðningur á svæðinu við áframhaldandi þróun verkefnisins. Heimamenn telja mikilvægt að fleiri gáttir séu nýttar í flugi inn í landið, t.d. á stöðum eins og á Akureyri og Egilsstöðum.“
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.