Tillaga Pírata var kynnt á blaðamannafundi í gær þar sem Birgitta Jónsdóttir þingmaður las upp tilkynningu þess efnis að sú hefð hefði skapast í íslenskum stjórnmálum að loforð væru svikin eftir kosningar. Markmið áætlana Pírata sé að kjósendur viti fyrirfram hvað flokkarnir ætli sér að standa við og geti tekið upplýstari ákvörðun um val sitt á kjördag. Þá sagði í yfirlýsingunni að Píratar muni ekki taka þátt í ríkisstjórnarsamstarfi með þeim flokkum sem ekki geti skuldbundið sig til ákveðinna verka fyrir kosningar.

Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar segir að með þessu séu Píratar að stilla Viðreisn upp sem hækju stjórnvalda vegna þess hve erfitt Viðreisn eigi með að svara kalli um stjórnarmyndunarviðræður.
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, er ekki alveg sammála því. „Okkur finnst eðlilegt að við sem nýr flokkur stillum upp okkar baráttumálum sem við teljum að eigi erindi við kjósendur. Þetta horfir öðruvísi fyrir okkur en þeim sem eru búnir að vera á þingi. Ég hugsa að við séum kannski harðari á því en einhverjir flokkar að vilja ná okkar stefnumálum fram.“
Þeir stjórnmálamenn sem Fréttablaðið ræddi við voru sammála um hæpið væri að ná að mynda drög að stjórnarsáttmála á næstu þrettán dögum samhliða því að vera í kosningabaráttu, sérstaklega þegar fylgið er á jafn mikilli hreyfingu og raun ber vitni. Innanbúðarmaður í Sjálfstæðisflokknum sagði útspilið hreinan og kláran dónaskap við þá flokka sem boðaðir væru til stjórnarmyndunarinnar. Flokksmenn Samfylkingar virðast þó hvað ánægðastir með framtakið og vilja margir ráðast á fullt í viðræðurnar.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.