Juventus er með 5 stiga forystu á toppi ítölsku deildarinnar eftir 2-1 sigur á Udinese í kvöld.
Juventus hefur vart stigið feilspor í fyrstu umferðum ítölsku deildarinnar í knattspyrnu. Þeir hafa unnið sjö af átta leikjum og virðist fátt geta stoppað þá í að vinna titilinn enn eitt árið.
Gamla konan mætti liði Udinese á heimavelli í kvöld og það voru gestirnir sem skoruðu fyrsta markið og var þar að verki Jakub Jankto.
Paolo Dybala jafnaði metin á 43.mínútu og staðan því 1-1 í leikhléi. Í upphafi síðari hálfleiks skoraði Dybala svo aftur, að þessu sinni úr vítaspyrnu. Fleiri urðu mörkin ekki og 2-1 sigur Juventus staðreynd.
Juventus hefur nú 5 stiga forystu á Roma á toppi deildarinnar en liðið hefur skorað 17 mörk í fyrstu átta leikjunum á tímabilinu og aðeins fengið á sig 5.
