Körfubolti

Miðar KKÍ á Eurobasket í Finnlandi gætu selst upp á næstu dögum | Þúsund fóru í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands, var mjög ánægður með það hvernig miðasalan á leiki íslenska landsliðsins á Eurobasket 2017 fór af stað í dag.

Takmarkaður fjöldi miða er í boði. Fyrir tveimur árum seldust  eitt þúsund miðapakkar á lokakeppnina í Berlín á fyrsta degi og það sama gerðist í dag.

„Þetta er algjörlega frábært enda eru hátt í þúsund miðar farnir hjá okkur í dag. Þetta gefur góð fyrirheit fyrir framhaldið hjá okkur,“ sagði Hannes í viðtali við Guðjón Guðmundsson, íþróttafréttamann á 365.

„Til að vera öruggur með að fá miða þá þarf fólk bara að drífa sig inn á Tix.is og ná sér í miða. Þetta fór hratt af stað og hefur síðan gengið vel í dag. Við erum bjartsýn með það að ná að vera með hátt í tvö þúsund Íslendinga á öllum körfuboltaleikjum á Eurobasket," sagði Hannes.

Það verður flautað til leiks í Helsinki 30. ágúst á næsta ári. Það þótti mörgum full mikil bjartsýni þegar Körfuknattleikssambandið talaði um möguleika á því að vera með hátt í þrjú þúsund Íslendinga á áhorfendapöllunum í Finnlandi

„Við erum að horfa á það að þessir pakkamiðar okkar seljist upp á næstu dögum. Það er bara gleði og stemmning framundan. þetta sýnir bara hvað íslenskir áhorfendur og stuðningsmenn eru frábærir,“ sagði Hannes.

Íslenska landsliðið í fótbolta leikur á móti Finnum 2. september í undankeppni HM 2018. Leikurinn fer fram í Tampere og næsta víst að þúsundir Íslendinga muni fjölmenna til Finnlands til að sjá íslensku landsliðið keppa í Finnlandi.

Það er hægt að sjá alla frétt Guðjóns Guðmundssonar í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×