Þetta sagði Þorgerður í Kosningaspjalli Vísis í dag. Hún segist verða vör við að fólk eigi í töluverðum vandræðum með að skilgreina Viðreisn - hvort sem það er til vinstri eða hægri.
„Ég hef séð að annað hvort erum við kölluð litli eða hækja Sjálfstæðisflokksins svo eru aðrir sem segja að við séum kannski að verða stóra Samfylkingin.“
Þorgerður segir að slíkar vangaveltur séu líklega til marks um „hina gömlu pólitík“ sem hún og margir séu orðnir þreyttir á. „Það er alltaf verið að draga mann í dilka, verið að setja mann á bás og fyrir vikið þurfum við í Viðreisn að hafa svolítið fyrir því,“ segir Þorgerður.
Viðreisn hafi ekki haft sama aðgang að ræðustól Alþingis og þeir flokka sem fyrir voru á þingi og því hafi flokknum ekki gefist færi á að koma stefnu sinni jafn vel til skila og eldri flokkar.
„Fyrir vikið erum við að reyna að segja fyrir hvað við stöndum og að við séum einfaldlega við en ekki íhald eða argasta vinstrimennska,“ segir Þorgerður.
Ekki hrifin af þreifingum í átt að harðkjarna vinstristjórn
Flokkurinn sé miðjuflokkur og sé til í viðræður við alla flokka, jafnt stjórnarflokkana sem aðra, svo lengi sem þeir séu tilbúnir að mæta þeim á miðjunni. „Við göngum alveg óbundin til kosninga. Við viljum tala við þá sem eru til í að tala við okkur á miðjunni; um frjálslyndi, um ákveðin sjónarmið,“ segir Þorgerður og nefnir þar hugmyndir Viðreisnar um myntráð í því samhengi. Þá þurfi samstarfsflokkarnir einnig að geta hugsað sér að standa að kerfisbreytingum, án kollvörpunar, svo sem í sjárvarútvegi og landbúnaði.
Draumaríkisstjórn Þorgerðar væri því frjálslynd miðjustjórn. „Við erum að horfa upp á það allir stjórnarandstöðuflokkarnir eru að þreifa fyrir sér í harðkjarna vinstristjórn. Við erum ekki þar. Við viljum heldur ekki íhaldsstjórn sem vill engar kerfisbreytingar. Þannig að við segjum: Komið aðeins til okkar á miðjuna og þá skulum við tala við alla flokka,“ segir Þorgerður sem segir Viðreisn því ekki útiloka samstarf við neinn.
Viðtalið við Þorgerði má sjá hér að ofan þar sem hún svarar spurningum lesenda um stefnumál Viðreisnar jafnt sem um hennar persónulegu mál; fjármál þeirra hjóna og vinskap hennar og Bjarna Benediktssonar.