Það þekkja það ef til vill margir sem ferðast hafa til fjarlægari landa hversu hvimleiðar moskító-flugur geta verið. Hingað til hafa þær ekki náð fótfestu hér á landi og fyrir það er pistlahöfundur New York Times einstaklega þakklátur.
Í pistli sem birtist á vefsíðu blaðins og ber nafnið „Moskítólausa eyparadís Evrópu: Ísland“ veltir pistlahöfundur því fyrir sér hvernig standi eiginlega á hér á landi megi ekki finna moskítóflugur í massavís, miðað við að flugurnar þrífist í öllum helstu nágrannalöndum okkar.
Leitar höfundur svara hjá Gísla Má Gíslasyni, prófessors í líffræði við HÍ, sem gefur þau svör að þrátt fyrir að það sé ekki vitað með vissu sé loftslagið á Íslandi líklegasta ástæðan fyrir því að Ísland sé moskítófrítt land.
Gísli varar þó við því að haldi hlýnun jarðar áfram sé þó mjög líklegt að moskítóflugan hasli sér völl hér á landi og „verði þá öllum til ama“ líkt og Gísli orðar það. Hann tekur þó fram að líklega muni silungurinn græða á komu þeirra enda muni þær að öllum líkindum verða mikilvæg fæða fyrir silunginn.
Í umfjöllun New York Times um Ísland og moskítóskortinn segir þó að finna megi eina moskítóflugu hér á Íslandi. Hún sé á Náttufræðistofnun Íslands en það var Gísli sjálfur sem handsamaði hana um borð í flugvél sem kom frá Grænlandi, eftir mikinn eltingarleik.
New York Times segir Ísland vera moskítólausa paradís
Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
