Það fór ekki vel hjá leikstjórnanda NFL-liðsins Cleveland Browns, Robert Griffin III, er hann mætti á leik síns liðs um helgina.
Venju samkvæmt þá lagði hann í bílastæði leikmanna á heimavelli félagsins. Eftir leik þá kárnaði gamanið hjá leikstjórnandanum er hann sá að það var búið að ræna sig og unnusta sína.
Þau höfðu skilið veskin sín eftir í bílnum og var búið að tæma þau meðan á leik stóð.
Griffin, oftast kallaður RG3, gekk í raðir félagsins fyrir leiktíðina og meiddist í fyrsta leik. Hann hefur ekki spilað síðan. Cleveland er búið að tapa öllum tólf leikjum sínum á tímabilinu.
