Illugi Gunnarsson starfandi menntamálaráðherra segir að sú staðreynd að þriðjungur fimmtán ára drengja geti ekki lesið sér til gagns vera ógn við lýðræðið í landinu.
Staða íslenskra nemenda hefur aldrei verið lakari í öllum greinum PISA-könnunarinnar en niðurstöður hennar birtust í síðustu viku. Árangur íslenskra nemenda er áberandi verri en nemenda á hinum Norðurlöndunum.
Þá er Ísland undir meðaltali OECD-ríkjanna í öllum flokkum. PISA-rannsóknin er framkvæmd á þriggja ára fresti. Könnunin gefur vísbendingar um breytingar á frammistöðu nemenda yfir tíma ásamt því að meta stöðu þeirra við lok skyldunáms.
Íslenskir nemendur í 10. bekk tóku þátt í PISA-könnuninni vorið 2015 í sjötta sinn. Íslenskir nemendur fengu 467 stig í vísindalæsi þar sem OECD-meðaltalið er 493. Þá fengu þeir 485 stig í lesskilningi þar sem OECD-meðaltalið er einnig 493. Íslenskir nemendur fengu 488 stig í stærðfræðiskilningi þar sem OECD-meðaltalið er 490.
Illugi Gunnarsson starfandi menntamálaráðherra, var gestur á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Hann segir þá staðreynd að þriðjungur fimmtán ára drengja geti ekki lesið sér til gagns vera ógn við lýðræðið í landinu.
„Ef að 30 prósent drengjanna í hverjum árgangi koma út úr grunnskólakerfinu í þessari stöðu hefur það heilmikil áhrif lýðræðið í landinu. Geta þessara einstaklinga til þess að móta afstöðu í lýðræðislegri umfjöllun er auðvitað mjög skert miðað við þá sem geta lesið sér til gagns. Þetta er ógn við lýðræðið okkar,“ sagði Illugi.
Illugi segir að menntamálaráðuneytið hafi ráðist í fimm ára átak til að efla lestrarskilning barna- og ungmenna. Þessu hafi fylgt 150 milljóna króna fjárveiting frá löggjafanum.
„Við gerðum skriflegt samkomulag við hvert einasta sveitarfélag í landinu og foreldrafélögin á hverjum stað um gerð lestraráætlana um hvernig við myndum á hverjum stað bregðast við þessu. Við réðum inn til Menntamálstofnunar sérfræðiteymi í lestrarmálum til að styðja við kennara í skólum þar sem þess væri óskað þannig að það væri faglegur stuðningur við skólana,“ sagði Illugi.
Hlusta má á viðtalið við Illuga í heild sinni hér fyrir ofan.