Íslenski boltinn

Björn: Laun Geirs umdeild innan knattspyrnuhreyfingarinnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Björn Einarsson tilkynnti í dag um framboð sitt til embættis formanns KSÍ. Þar með er ljóst að Guðni Bergsson hefur fengið mótframboð en núverandi formaður, Geir Þorsteinsson, tilkynnti í gær að hann muni ekki sækjast eftir endurkjöri.

„Ég held að ég hafi mikla reynslu, bæði úr knattspyrnu- og atvinnulífinu til að takast á við spennandi aðstæður sem hafa skapast hjá KSÍ,“ sagði Björn sem er núverandi formaður Víkings í Reykjavík. Hann var áður formaður knattspyrnudeildar félagsins.

Sjá einnig: Björn Einarsson staðfestir framboð sitt til formanns KSÍ

Hann segir að tíðindi gærdagsins hafi komið sér á óvart. „Þau voru mjög óvænt en það hefur verið hvati minn allan tímann að bjóða mig fram. Þessi tíðindi búa til allt annað landslag en höfðu ekki úrslitaáhrif á ákvörðun mína.“

Hann á von á hörðum formannslag en á erfitt með að meta hvort að annar aðili eigi eftir að blanda sér í þá baráttu fyrir ársþing KSÍ sem fer fram í Vestmannaeyjum 11. febrúar.

Björn hefur áður lýst því yfir að hann muni vinna launalaust fyrir sambandið fái hann kjörgengi. Hann stendur við þá yfirlýsingu.

„Ég held að það sé eina eðlilega fyrirkomulagið. Ég kem úr slíku umhverfi sjálfur og í atvinnulífinu er þetta fyrirkomulag sterkara. Þetta fyrirkomulag, sem hefur verið í KSÍ, er á undanhaldi.“

„Það hefur verið umdeilt innan hreyfingarinnar að stjórnarformaðurinn hefur verið launaður og hátt launaður. Ég held að félögin myndi taka þessari breytingu fagnandi.“


Tengdar fréttir

Geir gefur ekki kost á sér til formanns KSÍ

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, hefur ákveðið að gefa ekki áfram kost á sér til formanns KSÍ. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá honum sem er má sjá í heild sinni hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×