Höttur frá Egilsstöðum var ekki langt frá því að skella Íslands- og bikarmeisturum KR í átta liða úrslitum Maltbikarsins í körfubolta í kvöld þegar liðin mættust fyrir austan. Eftir svakalegar lokamínútur innbyrtu meistararnir nauman sigur, 92-87.
Flestir KR-ingar bjuggust vafalítið við auðveldum sigri sinni manna en sú varð ekki raunin og þurftu ásarnir Jón Arnór Stefánsson, Pavel Ermolinskij og Brynjar Þór Björnsson allir að spila rúman hálftíma til að leggja Egilsstaðarliðið að velli.
Allt ætlaði um koll að keyra í höllinni á Egilsstöðum þegar heimamenn komust einu stigi yfir, 87-86, með tveimur vítaskotum Aarons Moss þegar ein mínúta og 23 sekúndur voru eftir. Stefndi þar allt í ævintýralegan sigur.
Þá sögðu meistararnir hingað og ekki lengra og skoruðu síðustu sex stig leiksins og tryggðu sér sæti í undanúrslitum. Jón Arnór Stefánsson skoraði körfuna sem endanlega tryggði sigurinn en hann skoraði 27 stig í leiknum.
Aaron Moss átti stórleik fyrir Hött og var með þrennu en hann skoraði 28 stig, tók tólf fráköst og gaf tíu stoðsendingar. Mirko Stefán Virijevic skoraði 26 stig og tók 17 fráköst.
Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, spilaði sjálfur tæpar þrettán mínútur í leiknum og skoraði níu stig en hann hitti úr þremur af fjórum þriggja stiga skotum sínum. Enginn í Hattarliðinu skoraði fleiri þriggja stiga körfur en þjálfarinn.
KR er því komið í Laugardalshöllina ásamt Grindavík en undanúrslitin og úrslitin fara fram sömu helgina.
Meistarar KR hársbreidd frá því að falla úr leik í bikarnum gegn Hetti
Tómas Þór Þórðarson skrifar

Mest lesið



Ótrúleg markasúpa í Katalóníu
Fótbolti



„Eins gott að þeir fari að fokking semja“
Körfubolti

Inter í undanúrslit
Fótbolti


Aþena vann loksins leik
Körfubolti

Chelsea skrapaði botninn með Southampton
Enski boltinn