
„Við ætlum að hitta fólk, funda með Ferðamálastofu og halda þennan kynningarfund. Síðustu ár hefur margt bent okkur í áttina að Íslandi. Samkvæmt þeim nýjustu tölum sem ég hef voru um 840 íbúðir skráðar hér á landi um síðustu áramót og það kæmi mér ekki á óvart ef talan væri núna nær 950. Eftirspurnin er mikil og svo mikil að Ísland er í hópi fimmtán eftirsóttustu viðskomustaða erlendra ferðamanna sem skráðir eru á síðunni,“ segir Pickell og bætir við að alls um 66 þúsund eignir séu skráðar á heimsvísu.
Pickell tók við starfi forstjóra Homeexchange.com árið 2012 og skömmu síðar runnu þrjú önnur fyrirtæki í tengdum rekstri inn í félagið. Var hann áður aðstoðarforstjóri Sony Connect. Spurður hvernig hann útskýri þessa auknu eftirspurn eftir íbúðum hér á landi svarar Pickell að hana megi að miklu leyti rekja til ferða WOW air til og frá Bandaríkjunum.
„Hér í Kaliforníu sem og annars staðar eru margir að tala um ferðir WOW air og að mínu mati hefur tilkoma þess hér haft mikil áhrif á okkar fyrirtæki og áhugann á Íslandi þegar kemur að íbúðaskiptum. Allavega þegar um er að ræða viðskiptavini okkar frá Bandaríkjunum en ég þekki ekki aðrar ferðir flugfélagsins,“ segir Pickell.
Íslenskir viðskiptavinir Homeexchange.com leita að sögn forstjórans að jafnaði eftir íbúðum í Frakklandi, á Spáni, í Bandaríkjunum og á Ítalíu en einnig hér innanlands. Pickell segist meðvitaður um miklar vinsældir Airbnb hér á landi og þakkar fyrirtækinu fyrir að hafa rutt brautina varðandi gistiaðstöðu í deilihagkerfinu.
„Sérstaða okkar er aftur á móti sú að peningar skipta ekki um hendur þegar fólk skiptir á íbúðum. Þegar þú leigir bíl af stórfyrirtæki þá finnurðu kannski ekki alltaf þörf fyrir að skila honum tandurhreinum eftir notkun. En það er eitthvað sem gerist þegar peningar eru teknir út úr dæminu. Þegar þú færð lánaðan bíl frá kunningja er aftur á móti mun líklegra að þú skilir honum tandurhreinum og í fullkomnu ástandi. Svo erum við á öðrum markaði en Airbnb. Við erum að keppa við erlenda námsmenn á meðan þeir keppa við hótel og frístundahús.“
Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.