Fjölskylda Birnu Brjánsdóttur, foreldrar hennar og bróðir, þakka innilega fyrir „allan veittan stuðning og framlag“ vegna útfarar og erfidrykkju Birnu. Þau segja stuðninginn ylja hjarta á sorgarstundu.
„Allir þeir sem komu að því að gera þetta að fallegri stundu, listamenn, einstaklingar, fyrirtæki og Landhelgisgæslan. Allir sem með óeigingjarnri vinnu og framlagi hjálpuðu okkur að búa til yndislega minningarstund um elsku dóttur okkar og sýna henni virðingu,“ segir í tilkynningu frá fjölskyldunni.
„Allt þetta yljar hjartað á sorgarstundu.“
Þúsundir mættu í göngu til minningar um Birnu þann 28. janúar en hún var jarðsungin þann 3. febrúar. Erfidrykkja Birnu fór fram í flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli. Þyrla Gæslunnar, en áhöfn hennar fann Birnu um hádegisbil þann 22. janúar, stóð fyrir utan skýlið.
Fjölskylda Birnu þakkar veittan stuðning
