
Skúli vill ekki tjá sig um stöðu Icelandair: „Útlitið er mjög gott“

„Við vorum að auka okkar framboð á sætum um tæp 80 prósent í ár og útlitið er mjög gott. Það er hins vegar alveg ljóst að samkeppnin í flugi bæði til og frá Íslandi, og ekki síst flugið yfir hafið, mun bara aukast og harðna og fargjöldin munu halda áfram að lækka og mun meira en áður hefur sést,“ segir Skúli Mogensen í samtali við Vísi.
Flugfélagið Air Canada tilkynnti í gær að það ætli að hefja áætlunarflug til Íslands í sumar og líkt og kom fram í forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag munu hátt í 30 flugfélög fljúga hingað til lands næsta sumar. Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, sagði þar að meðalverð flugmiða, sérstaklega á Atlantshafsleiðinni, hafi farið lækkandi. Hærra olíuverð og sterkt gengi krónunnar hefðu einnig áhrif.
„Það er eðlilegt að markaðir bregðist við svona neikvæðum fréttum,“ sagði Björgólfur en gengi bréfa Icelandair Group í Kauphöll Íslands stendur í 16,1 krónu á hlut þegar þessi frétt er skrifuð. Virði bréfanna hefur því fallið um 27 prósent síðan markaðir opnuðu í gærmorgun.
Tengdar fréttir

Air Canada flýgur til Íslands í sumar
Kanadíska flugfélagið Air Canada tilkynnti í dag að það myndi hefja flugferðir til Íslands í sumar frá Toronto og Montreal.

„Tilkynning Icelandair var rýr og gaf markaðnum enga hjálp“
Hagfræðideild Landsbankans og IFS greining lækkuðu í gær verðmat sitt á Icelandair í kjölfar svartrar afkomuviðvörunar flugfélagsins.

Horfðu á 27 milljarða gufa upp
Svört afkomuviðvörun olli því að bréf Icelandair lækkuðu um 24 prósent. "Samkeppnin haft meiri áhrif á félagið en búist var við,“ segir sérfræðingur. Hlutur Lífeyrissjóðs verslunarmanna lækkað um 17 milljarða.

Hlutabréf Icelandair hríðfalla eftir svarta afkomuviðvörun
Hlutabréf í Icelandair Group hafa fallið í verði um 24 prósent frá opnun markaða í morgun. Lækkunina má rekja til svartrar afkomuviðvörunar sem fyrirtækið sendi Kauphöll Íslands í morgun.

Hundruð þúsunda leita að beinu flugi frá Asíu til Íslands
Áhugi ferðamanna í Asíu á ferðum til Íslands kemur glöggt í ljós í gagnabanka ferðabókunarrisans SkyScanner.