Orðrómur um bardaga þeirra fór á flug í gær og nú hefur þessi orðrómur verið staðfestur. Bardagi þeirra verður næststærsti bardagi kvöldsins í London.
Þetta verður fyrsti bardagi Gunnars í UFC síðan í maí á síðasta ári. Þá vann Gunnar sannfærandi sigur á Rússanum Albert Tumenov.
Gunnar tjáði íþróttadeild á dögunum að UFC hefði opnað gluggann á að hann myndi berjast á þessu bardagakvöldi en þá héldu flestir að búið væri að fullmanna kvöldið.
UFC hafði greinilega mikinn áhuga á því að tefla Gunnari fram þetta kvöld fyrst þeir settu hann á það og í næststærsta bardagann.

Gunnar vildi berjast við einhvern sem væri nálægt honum á styrkleikalista UFC en Gunnar er í níunda sæti í veltivigtinni. Samkvæmt heimildum Vísis var haft samband við nokkra þeirra en allir sögðust þeir vera meiddir.
Bardagi við Jouban varð því niðurstaðan. Þessi 35 ára gamli Bandaríkjamaður er ekki á styrkleikalista UFC.
Jouban er engu að síður öflugur bardagakappi sem hefur unnið 15 af 19 bardögum sínum í MMA. Níu sigrar hafa komið eftir rothögg, fimm eftir dómaraákvörðun og aðeins einn eftir uppgjafartak.
Hann keppti fyrst í UFC í ágúst árið 2014. Hann hefur unnið sex af átta bardögum sínum hjá bardagasambandinu stóra.
Annað af töpum Jouban kom gegn Albert Tumenov sem Gunnar vann síðasta vor. Tumenov vann sannfærandi sigur á Jouban en bardagi þeirra var stöðvaður í fyrstu lotu.
Sá bardagi fór fram í október árið 2015 en síðan þá hefur Jouban unnið þrjá bardaga í röð.