Körfubolti

Kristen í heimsókn í Hólminum og Aaryn sló næstum því metið hennar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristen McCarthy og Aaryn Ellenberg
Kristen McCarthy og Aaryn Ellenberg Vísir/Samett/Stefán og Daníel Þór
Aaryn Ellenberg átti stórleik þegar Snæfell komst í 1-0 í undanúrslitaeinvígi sínu í úrslitakeppni Domino´s deildar kvenna í Stykkishólmi í gær.

Aaryn Ellenberg var aðeins einu stigi frá því að jafna stigamet Kristen McCarthy sem eru sú sem hefur skorað mest fyrir Snæfellsliðið í einum leik í úrslitakeppni.

Svo skemmtilega vill til að handhafi stigamets Snæfells í úrslitakeppninni, umrædd Kristen McCarthy, var einmitt á leiknum í Hólminum í gærkvöldi. Það hafði greinilega mjög góð áhrif á Aaryn Ellenberg sem átti sinn besta leik með Snæfellsliðinu.

Aaryn Ellenberg skoraði 42 stig á 38 mínútum í leiknum auk þess að taka 14 fráköst og gefa 6 stoðsendingar. Ellenberg hitti úr 14 af 22 skotum sínum (64 prósent) þar af 4 af 5 skotum sínum fyrir utan þriggja stiga línuna.

Sjá einnig:Kristen McCarthy: Ég elska það að spila á Íslandi

Kristen McCarthy hafði skorað 43 stig í öðrum leik Snæfells og Keflavíkur í lokaúrslitunum 2015. McCarthy hitti úr 19 af 30 skotum sínum í leiknum (63 prósent). McCarthy var frábær í þessari úrslitakeppni fyrir tveimur árum og var með 32,6 stig, 11,6 fráköst og 4,4 stolna bolta að meðaltali í leik.

Kristen McCarthy hefur spilað í Rúmeníu og Þýskalandi síðan hún varð Íslandsmeistari með Snæfelli vorið 2015 en hefur alltaf haldið góðu sambandi við Hólmara og heimsótt Stykkishólm reglulega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×