Handbolti

Ágúst íhugar framboð til formanns HSÍ

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ágúst fór með kvennalandsliðið á tvö stórmót.
Ágúst fór með kvennalandsliðið á tvö stórmót. vísir/anton
Ágúst Jóhannsson, fyrrverandi þjálfari íslenska kvennalandsliðsins og núverandi þjálfari karlaliðs KR, íhugar að bjóða sig fram til formanns HSÍ.

Þetta staðfesti Ágúst í samtali við handboltavefinn fimmeinn.is í gær.

Þar segist Ágúst upphaflega hafa ætlað að bjóða sig fram í stjórn HSÍ en síðan hafi komið fram sú hugmynd að hann biði sig fram til formanns sambandsins á ársþingi HSÍ 22. apríl næstkomandi.

„Það var nú bara hugmyndin hjá mér að bjóða mig fram sem stjórnarmann hjá HSÍ. Eftir að ég fór að viðra það við menn hafa þónokkrir komið að máli við mig og spurt af hverju ég fari bara ekki alla leið og bjóði mig fram í formanninn og það er ég að skoða í rólegheitum,“ sagði Ágúst við fimmeinn.is.

Ágúst segir að handboltinn á Íslandi verið í of mikilli vörn undanfarin ár.

„Olís deild karla og kvenna þarf að vera meira áberandi og finnst mér að HSÍ þurfi að gera betur í kynningarmálum á því sem er að gerast hér heima. Til þess þarf t.d. að vinna markvissara í kynningu á því sem er að gera, bæta umgjörðina í kringum leiki, setja standardinn mun hærra og auka samstarfið við félögin,“ sagði Ágúst.

„Handboltinn á að vera mun framar hér heima og þarf að spyrna við fótunum innan hreyfingarinnar til að færa þessa frábæru íþrótt þangað sem hún á að vera. Ég vil sjá okkur nær fótboltanum.“

Fresturinn til að bjóða sig fram til formanns HSÍ rennur út 1. apríl næstkomandi. Guðmundur B. Ólafsson hefur verið formaður sambandsins frá árinu 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×