Handbolti

Fyrrverandi landsliðsþjálfarar sækjast eftir sæti í stjórn HSÍ

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þorbergur er fyrrverandi landsliðsmaður og -þjálfari.
Þorbergur er fyrrverandi landsliðsmaður og -þjálfari. vísir/akraborgin
Tveir fyrrverandi landsliðsþjálfarar sækjast eftir sæti í stjórn HSÍ en listi yfir frambjóðendur var í dag birtur á heimasíðu Handknattleiksambandsins.

Þetta er þeir Þorbergur Aðalsteinsson og Ágúst Þór Jóhannsson sem íhugaði einnig að bjóða sig fram til formanns HSÍ. Ágúst lét þó framboð til stjórnar nægja.

Þorbergur var þjálfari karlalandsliðsins á árunum 1990-95 en undir hans stjórn lenti Ísland í 4. sæti á Ólympíuleikunum í Barcelona 1992. Þorbergur stýrði einnig íslenska landsliðinu á HM á heimavelli 1995. Þá lék hann 148 landsleiki og skoraði 369 mörk á sínum tíma.

Ágúst þjálfaði kvennalandsliðið á árunum 2011-17 og fór með það á tvö stórmót; HM í Brasilíu 2011, þar sem Ísland komst í 16-liða úrslit, og EM í Serbíu 2012. Ágúst er í dag þjálfari karlaliðs KR.

Davíð B. Gíslason, Hjalti Þór Hreinsson, Hjördís Guðmundsdóttir og Vigfús Þorsteinsson bjóða sig einnig fram til áframhaldandi setu í stjórn HSÍ. Magnús Karl Daníelsson býður sig einn fram til varastjórnar HSÍ.

Þá er ljóst að Guðmundur B. Ólafsson situr áfram sem formaður en hann fékk ekkert mótframboð.

Ársþing HSÍ fer fram laugardaginn 22. apríl en þar verður kosið um fjögur stjórnarsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×