Fótbolti

Börsungar vongóðir að leikbanni Neymar verði frestað | Ferðaðist með til Madríd

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Neymar fær rauða spjaldið sem er að valda fjaðrafoki hjá spænska knattspyrnusambandinu.
Neymar fær rauða spjaldið sem er að valda fjaðrafoki hjá spænska knattspyrnusambandinu. vísir/getty
Börsungar vonast til þess að geta teflt fram brasilíska framherjanum Neymar þrátt fyrir að hann taki þessa dagana út þriggja leikja bann í stórleiknum gegn Real Madrid annað kvöld en hann ferðaðist með liðinu til höfuðborgar Spánar í gær.

Neymar fékk rautt spjald í 0-2 tapi Barcelona gegn Malaga á dögunum en aganefnd spænsku deildarinnar dæmdi hann í þriggja leikja bann og sakaði hann um að hafa gert lítið úr fjórða dómaranum á leiðinni af velli. Hefur hann þegar tekið út eins leikja bann.

Forráðamenn Barcelona kærðu úrskurðinn til gerðardómstóls íþrótta á Spáni en skiluðu inn kærunni seint að kvöldi til í gær þegar dómstóllinn hafði lokið störfum þá vikuna.

Hefur það borist út að forráðamenn Barcelona séu vongóðir um að á meðan málið sé í meðferð þá taki bannið ekki gildi og telji því að Neymar eigi því að geta tekið þátt í leiknum. Verður því fróðlegt að sjá hvort Börsungar láti á það reyna eða hvort hann verði í áhorfendastúkunni á morgun.

Þátttaka hans í leiknum yrði gríðarlegur liðsstyrkur fyrir Börsunga sem þurfa einfaldlega að vinna leikinn til að eiga einhverja von um að endurheimta spænska meistaratitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×