Kimi Raikkonen datt út strax í fyrstu beygju spænska kappakstursins eftir samstuð við Max Verstappen og Valtteri Bottas. Raikkonen nýtti tímann til að hitta ungan aðdáenda sem tók brotthvarf Finnans nærri sér.
Drengur einn á brautinni tók brotthvarf Raikkonen úr keppni afar nærri sér. Hann sást grátandi í stúkunni eftir að ljóst varð að Raikkonen tæki ekki meiri þátt.
Raikkonen bauð drengnum að koma inn á svæði Ferrari liðsins á brautinni og gaf honum derhúfu og stillti sér upp fyrir mynd með honum. Myndband af atvikinu má sjá í spilara með fréttinni.

