Endaspretturinn var afar spennandi og allir fjórir efstu ökumennirnir áttu raunar möguleika þegar síðasta tilraun þeirra fór fram. Kimi Raikkonen varð fjórði á Ferrari.
Tölfræðin segir að fremsta rásröðin sé afar mikilvæg í Barselóna en í 23 af 26 síðustu keppnum á brautinni hefur ökumaður á fremstu rásröð unnið.
Fyrsta lota
Skipta þurfti um vél í Ferrari bíl Sebastian Vettel á milli þriðju æfingarinnar og tímatökunnar. Vélin virtist bila hjá Vettel um leið og hann fór út á brautina. Vettel var sagt að stöðva bílinn en hann vildi fá að koma bílnum inn á þjónustusvæðið til að hægt væri að gera við hann. Í sameiningu tókst Vettel og verkfræðingum Ferrari að stilla bílinn rétt og setja hring.
Romain Grosjean snéri Haas bílnum í sinni fyrstu tilraun. Hann missti einfaldlega grip og skautaði út úr beygjunni. Hann gat þó haldið áfram og sett tíma.
Í fyrstu umferð féllu úr leik; Daniil Kvyat á Toro Rosso, Stoffel Vandoorne á McLaren, Lance Stroll á Williams, Jolyon Palmer á Renault og Marcus Ericsson á Sauber. Það er athyglisvert að þeir eru allir frá sitthvoru liðinu. Það er merki þess að baráttan á eftir þremur toppliðunum er ógnar hörð.
Hamilton var fljótastur í lotunni og Raikkonen annar einungis 0,2 sekúndum á eftir Hamilton.

Komist ökumenn áfram úr annarri lotu í þá þriðju þá hefja þeir keppnina á þeim dekkjum sem þeir settu hraðasta tímann í annarri lotu á. Það getur því verið gott að fara mátulega sparlega með dekkin í annarri lotu.
Sviptingarnar urðu gríðarlega undir lok lotunnar. Fernando Alonso kom McLaren bílnum áfram í þriðju lotuna.
Þeir sem féllu úr leik í annarri lotu voru; Pascal Wehrlein á Sauber, Haas ökumennirnir, Nico Hulkenberg á Renault og Carlos Sainz á Toro Rosso.
Þriðja lota
Í fyrstu tilraun þriðju lotunnar var Hamilton fljótastur en Bottas gerði stór mistök, svo hann átti inni fyrir næstu tilraun. Raikkonen varð þriðji og Vettel fjórði.
Vettel komst upp fyrir Bottas í síðustu tilrauninni en munurinn á topnum var afar lítill. Einungis 0,051 sekúnda skyldi að Hamilton og Vettel.
Bein útsending frá keppninni á Spáni hefst klukkan 11:30 á morgun á Stöð 2 Sport 2.
Hér að neðan má finna öll helstu úrslit helgarinnar á gagnvirku brautarkorti.