Íslenski boltinn

Allan Kuhn hafnar Blikum: „Heiður að vera boðið starfið“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Allan Kuhn tekur ekki við Breiðabliki.
Allan Kuhn tekur ekki við Breiðabliki. vísir/getty
Danski þjálfarinn Allan Kuhn tekur ekki við Pepsi-deildarliði Breiðabliks þrátt fyrir að hafa verið boðið starfið öðru sinni. Þetta hefur Vísir fengið staðfest frá honum sjálfum.

Kuhn var í viðræðum við Breiðablik haustið 2014 en samningaviðræður sigldu þá í strand. Arnar Grétarsson var ráðinn og skilaði liðinu í annað sætið á sinni fyrstu leiktíð í Pepsi-deildinni en Arnar var óvænt rekinn á þriðjudaginn eftir tap í fyrstu tveimur umferðum sumarsins.

„Það er mér heiður að Breiðablik hafi boðið mér starfið sem þjálfari liðsins. Aftur á móti er ég að skoða betur önnur tilboð sem mér hafa borist og því verð ég að hafna tilboði Breiðabliks. Ég óska Breiðabliki samt alls hins besta í framtíðinni,“ segir Allan Kuhn.

Kuhn tók við Malmö í fyrra og gerði liðið að Svíþjóðarmeistara en var látinn fara þrátt fyrir að skila titlinum í hús. Hann var einnig aðstoðarþjálfari Álaborgar þegar liðið varð afar óvænt Danmerkurmeistari fyrir þremur árum síðan.

Þjálfaraleit Breiðabliks heldur áfram en liðið á næst leik í Pepsi-deildinni á móti nágrönnum sínum í Stjörnunni á sunnudagskvöldið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×