Mercedes liðið í Formúlu 1 hefur birt myndir af keppnisbílum sínum sem eru í samræmi við nýjustu keppnisreglurnar í Formúlu 1. Nafn og númer ökumanns skal vera sýnilegt á bílnum.
FIA, alþjóða akstursíþróttasambandið, ákvað í apríl að frá og með spænska kappakstrinum yrðu nöfn og keppnisnúmer ökumanna að vera stærri en áður hefur tíðkast. Keppnisnúmer ökumanna verða að vera 23 sentimetrar á hæð og nafn ökumanns verður að vera að lágmarki 15 sentimetrar á yfirbyggingu bílsins.
Mercedes sýndi sína hönnun nýlega og þá eru bæði númerið og nafnið sett á hákarlauggan. Nafnið er hins vegar einungis opinber þriggja stafa skammstöfun ökumanns, sú sama og er notuð í grafíkinni sem notuð er í sjónvarpsútsendingum.
Reglurnar taka gildi frá og með spænska kappakstrinum næstu helgi og er ætlað að auðvelda áhorfendum og lýsendum að greina ökumenn í sundur.
