Óbeinna áhrifa af opnun Costco gætir í nýjustu verðbólgumælingu Hagstofunnar. Um þetta eru hagfræðingar greiningardeildar Arion banka og hagfræðideildar Landsbankans sammála. Neysluverðsvísitalan í maí hækkaði um 0,2%. Sé horft fram hjá húsnæðisliðnum lækkaði neysluverðsvísitalan um 0,4%. Niðurstaðan er sú að tólf mánaða verðbólga fer úr 1,9% í 1,7%.
Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur í hagfræðideild Landsbankans, segir verð í ákveðnum vöruflokkum hafa lækkað, ólíkt því sem búast hefði mátt við. Þar nefnir hann föt, raftæki, snyrtivörur, tómstundavörur og varahluti í bíla.
„Það eru sterkar vísbendingar um að áhrif Costco hafi verið þarna til staðar,“ segir Gústaf en bendir á að þar sé um að ræða lækkanir vöruverðs hjá þeim verslunum sem voru fyrir á markaðnum og hafa verið að undirbúa sig undir opnun Costco.
Undir þetta tekur Erna Sverrisdóttir, hagfræðingur hjá greiningardeild Arion banka. Hún segir ekki vera hægt að sjá bein áhrif af opnun Costco strax. Mæling Hagstofunnar hafi verið gerð 8. til 12. maí, fyrir opnun Costco. Næsta mæling fari fram 12. til 16. júní.
Erna segir að það verði spennandi að sjá hver beinu áhrifin af Costco á verðlagsvísitöluna verði. En Hagstofan muni taka tillit til markaðshlutdeildar verslunarinnar í útreikningum sínum.

