Innlent

Hvítasunnuhelgin verður grá

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vísir/ernir
Íslendingar og aðrir sem verja hvítasunnuhelginni á landinu þurfa ekki að kaupa sér aðra túbu af sólarvörn ef marka má Veðurstofuna.

Það verður þungbúið svo gott sem alla helgina yfir öllu landinu, hiti á bilinu 3-15 stig og rigning með köflum.

Það er útlit fyrir fremur hæga austlæga átt í dag en norðaustan strekking norðvestantil á landinu og með norðurströndinni. Að sögn veðurfræðings verður áfram vætusamt, einkum á austanverðu landinu en á morgun er spáð áframhaldandi austanátt og rigningu. Það verður þó þurrt að mestu norðan heiða fram að hádegi.

Hvassast verður við suðurströndina en úrkomulítið norðan heiða fram að hádegi og hiti á bilinu 5-15 stig - hlýjast vestanlands. Um helgina má svo búast við svipuðu veðri en í byrjun næstu viku dregur víða úr úrkomu en fer heldur kólnandi í norðanstæðari vindáttum.

Veðurhorfur á landinu næstu daga, af vef Veðurstofunnar



Á laugardag:

Austlæg átt, 5-15 m/s, hvassast á Suðurlandi. Dálítil rigning eða skúrir en úrkomulítið vestanlands framan af. Hiti 6 til 15 stig, hlýjast á Vesturlandi.

Á sunnudag (hvítasunnudagur):

Austlæg átt, 3-10, en heldur hvassara við suðurströndina um tíma. Rigning SA-lands, en annars skýjað með köflum og skúrir síðdegis. Hiti svipaður.

Á mánudag (annar í hvítasunnu):

Norðaustlæg átt, 3-10. Skýjað en úrkomulítið NA-lands, en skýjað með köflum V-til og skúrir síðdegis. Hiti 5 til 14 stig, hlýjast við Borgarfjörð.

Á þriðjudag:

Norðaustlæg eða breytileg átt. Skúrir SV-til, annars skýjað að mestu en úrkomulítið. Heldur kólnandi.

Á miðvikudag og fimmtudag:

Hægar norðaustlægar áttir og skýjað að mestu. Dálítil væta S-til, annars þurrt að mestu. Fremur svalt, einkum NA-lands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×