Erlent

Ræddi við Pútín og varaði við stig­mögnun

Gunnar Reynir Valþórsson og Árni Sæberg skrifa
Forsetarnir tveir ræddu saman í síma. Þessi mynd er tekin árið 2019.
Forsetarnir tveir ræddu saman í síma. Þessi mynd er tekin árið 2019. Mikhail Svetlov/Getty

Donald Trump Bandaríkjaforseti er sagður hafa rætt við Vladimír Pútín Rússlandsforseta í síma fyrir helgi.

Þetta herma heimildir bandaríska dagblaðsins Washington Post. Heimildir þeirra herma að Trump hafi varað Pútín eindregið við því að stigmagna stríðið í Úkraínu og á forsetinn verðandi að hafa minnt Pútín á að Bandaríkjamenn séu enn með töluverðan herafla í Evrópu. 

Úkraínumenn vissu ekki af samtalinu

Þá er sagt að Trump hafi farið fram á frekari viðræður við Pútín, með það að markmiði að ná fram friðsamlegri lausn í Úkraínu. Trump hefur margoft sagt síðustu misserin að það væri létt verk að leysa Úkraínustríðið, án þess að hann hafi farið nánar út í þá sálma. 

Talsmenn Úkraínuforseta segja að þeir hafi ekki haft veður af samtali Trumps og Pútíns fyrir fram og raunar hafa talsmenn Trumps ekki staðfest að það hafi í raun átt sér stað. 

Tjá sig ekki um einstök símtöl

Í svari til Reuters segir Steven Cheung, samskiptastjóri Trumps að ekki sé hægt að tjá sig um einstök símtöl sem Trump eigi við þjóðarleiðtoga heimsins. Búist er við því að Trump og Joe Biden fráfarandi forseti hittist í Hvíta húsinu á miðvikudaginn kemur, og er talið að Biden muni eyða miklu púðri í að reyna að fá Trump til að halda áfram stuðningi við Úkraínu á hernaðarsviðinu.

Uppfært 9:10

Dmitrí Peskóv, talsmaður Pútíns, hefur haldið því fram að yfirmaður sinn hafi ekki rætt við Trump. Þar að auki liggi ekki fyrir áætlanir um að þeir muni tala saman á næstunni.


Tengdar fréttir

Aldrei jafn margar drónaárásir

Umfangsmiklar árásir voru gerðar í Úkraínu og Rússlandi síðastliðna nótt. Aldrei hafa jafn margir drónar verið sendir af stað í einu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×