Íslenski boltinn

Aldrei séð jafn stressaðan mann í þingsal og Willum í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Willum Þór Þórsson.
Willum Þór Þórsson. Mynd/Hanna
Willum Þór Þórsson, þjálfari karlaliðs KR, þurfti að fylgjast með því úr þingsal í gær þegar lið hans keppti við b-deildarlið ÍR í sextán liða úrslitum Borgunarbikarsins.

Willum Þór er varaþingmaður Suðvesturkjördæmis og var kallaður inn í fjarveru Eyglóar Harðardóttur. Í gærkvöldi var mikið í gangi á Alþingi þar sem þingmenn voru að reyna að ganga frá öllum lausum endum áður en þeir komust sumarfrí.

Willum komst því ekki upp í Mjódd til að stýra sínu liði í bikarleiknum en Arnar Gunnlaugsson, aðstoðarþjálfari hans hjá KR, var þjálfari KR-liðsins í þessum leik.

Flestir hefðu búist við frekar auðveldum sigri hjá KR en annað kom á daginn því leikurinn fór alla leið í vítaspyrnukeppni sem KR vann svo 7-6. Í marki KR lengst af í leiknum stóð Jakob Eggertsson í sínum fyrsta alvöru leik en hann kom inná sem varamaður eftir að Sindri Snær Jensson meiddist.

ÍR-ingar fengu tækifæri til að tryggja sér sigur í vítakeppninni en hinn 19 ára gamli markvöður kom þá til bjargar og tryggði KR bráðabana. Jakob varði síðan síðustu vítaspyrnu ÍR og tryggði KR-liðinu sæti í átta liða úrslitunum.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfsstæðisflokksins í  Reykjavíkurkjördæmi norður, tók vel eftir því þegar Willum Þór var að fylgjast með vítaspyrnukeppninni í þingsal.

„Aldrei séð jafn stressaðan mann í þingsal og Willum sem fylgdist með vitakeppni sinna manna úr þingsal,“ skrifaði Áslaug Arna inn á Twitter.

Þeir sem ekki sáu Willum Þór í þingsalnum í gærkvöldi en eru vanir að sjá hann arka fram og til baka í þjálfaraboxinu á hliðarlínunni geta örugglega auðveldað ímyndað sér hvernig gekk hjá honum í gærkvöldi þegar hann fylgdist með liði sínu úr fjarska í svona spennandi leik.






Tengdar fréttir

Willum Þór: Við verðum bara betri

Willum Þór Þórsson var nokkuð sáttur með leik KR-inga gegn Val í kvöld þó auðvitað væri hann ekki sáttur með að fara stigalaus frá Hlíðarenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×