Erlent

Merkel og Trump funda fyrir leiðtogafund G20

Atli Ísleifsson skrifar
Angela Merkel og Donald Trump hittust síðast á fundi G7-ríkjanna á Sikiley í maímánuði.
Angela Merkel og Donald Trump hittust síðast á fundi G7-ríkjanna á Sikiley í maímánuði. Vísir/AFP
Angela Merkel Þýskalandskanslari og Donald Trump Bandaríkjaforseti munu funda í Hamborg á fimmtudag, daginn fyrir leiðtogafund G20-ríkjanna. Steffen Seibert, talsmaður Merkel greindi frá þessu í dag.

Samband Þýskalands- og Bandaríkjastjórnar hefur verið stirt eftir að Trump tók við embætti í janúar, vegna ólíkra stefna þegar kemur að loftslagsmálum, viðskiptum og fleiri málum.

Þannig hefur ákvörðun Bandaríkjastjórnar að segja skilið við Parísarsamninginn um loftslagsmál farið sérstaklega fyrir brjóstið á leiðtogum Þýskalands og fleiri vestrænna ríkja.

Rúmlega 20 þúsund lögreglumenn verða á vaktinni um helgina til að tryggja öryggi á fundinum, en meðal gesta verða Vladimír Pútín Rússlandsforseti, Xi Jinping Kínaforseti og Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti, auk Merkel og Trump.

Angela Merkel og Donald Trump hittust síðast á fundi G7-ríkjanna á Sikiley í maímánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×