Innlent

Veðurstofan varar við mikilli rigningu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Eins og sjá má á þessu veðurkorti er spáð mikilli rigningu sunnan-og vestanlands á morgun.
Eins og sjá má á þessu veðurkorti er spáð mikilli rigningu sunnan-og vestanlands á morgun. veðurstofa íslands
Veðurstofan hefur sent frá sér tilkynningu vegna mikillar rigningar sem spáð er um landið sunnan-og suðaustanvert eftir hádegi á morgun, þriðjudaginn 18. júlí og fram á miðvikudag 19. júlí.

Í tilkynningunni segir að búast megi við mestri úrkomu í kringum fjöll og jökla á þessum svæðum og er varað við vexti í ám og lækjum í kringum Eyjafjalla- og Mýrdalsjökul og við sunnanverðan Vatnajökul. Ferðamenn eru beðnir um að hafa varan á í kringum ár og læki á svæðinu.

Veðurhorfur næstu daga eru þessar:

Suðvestlæg átt, 5-10 m/s og smáskúrir, en léttskýjað um landið austanvert. Vaxandi suðaustanátt með rigningu í fyrramálið, 10-23 m/s upp úr hádegi, hvassast við suðvesturströndina.

Talsverð og sums staðar mikil rigning um tíma sunnanlands, en þurrt um landið norðaustanvert. Snýst í mun hægari suðlæga átt með skúrum fyrst suðvestantil annað kvöld. Hiti 10 til 18 stig í dag, hlýjast austanlands, en hiti að 20 stigum norðaustantil á morgun.

Á miðvikudag:

Suðaustan 13-18 m/s um landið suðaustanvert og rigning, en talsvert hægari og úrkomulítið norðan- og norðvestantil. Hiti 8 til 20 stig, hlýjast norðanlands.

Á fimmtudag:

Austlæg átt 5-10 m/s og rigning með köflum suðaustanlands, en þurrt og bjart að mestu vestantil á landinu. Áfram fremur hlýtt í veðri.

Á föstudag og laugardag:

Norðaustlæg átt 5-10 m/s og léttir víða til. Hiti að 20 stigum í innsvetum um landið vestanvert, en skýjað og mun svalara við norðausturströndina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×