Handbolti

Frakkar keyrðu yfir strákana hans Óla Stefáns

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnar Freyr Arnarsson skoraði fjögur mörk á móti Frökkum.
Arnar Freyr Arnarsson skoraði fjögur mörk á móti Frökkum. Vísir/EPA
Íslenska 21 árs landsliðið er þessa dagana í lokaundirbúningi sínum fyrir heimsmeistaramótið í Alsír sem hefst 18. júlí næstkomandi.

Íslenska liðið hefur verið í Þýskalandi og Frakklandi og spilað æfingaleiki við heimamenn.

Ísland vann þriggja marka sigur á Þýskalandi, 33-30, í fyrsta æfingaleiknum sínum en var svo heldur betur skotið niður á jörðina í gær.

Íslensku strákarnir töpuðu þá illa fyrir Frökkum í vináttulandsleik í Omnisport höllinni í Abbeville í Frakklandi. Í lokin skildu sextán mörk.

Framarinn Þorgeir Bjarki Davíðsson, Eyjamaðurinn Dagur Arnarsson og Arnar Freyr Arnarsson, leikmaður Kristianstad í Svíþjóð, voru markahæstir í íslenska liðinu með fjögur mörk hver.  

Íslenska liðið lenti snemma undir í leiknum og elti allan fyrri hálfleikinn, staðan í hálfleik 17-12 fyrir Frakkland. Í síðari hálfleik var eins og allt loft væri úr okkar mönnum, Frakkar keyrðu yfir strákana okkar og unnu stórsigur, 38-22.

Ólafur Stefánsson og Sigursteinn Arndal, þjálfar íslenska liðsins, fá því verðugt verkefni að rífa strákana upp fyrir seinni vináttulandsleik liðanna sem fram fer í kvöld. Það væri ekki gott að fara inn á HM með tvö stórtöp á bakinu.

Markaskorarar Íslands í leiknum: Þorgeir Bjarki Davíðsson 4, Dagur Arnarsson 4, Arnar Freyr Arnarsson 4, Ómar Ingi Magnússon 3, Óðinn Þór Ríkharðsson 2, Kristján Örn Kristjánsson 1, Hákon Daði Styrmisson 1, Aron Dagur Pálsson 1, Birkir Benediktsson 1.

Einar Baldvin Baldvinsson varði 11 skot og Grétar Ari Guðjónsson varði 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×