Innlent

Mesti hiti í Reykjavík frá árinu 2008

Atli Ísleifsson skrifar
Veðurfræðingur segir að hitinn í Reykjavík í dag skýrist meðal annars af því að það hafi verið nógu mikil norðan- og austanátt til að halda hafgolunni frá.
Veðurfræðingur segir að hitinn í Reykjavík í dag skýrist meðal annars af því að það hafi verið nógu mikil norðan- og austanátt til að halda hafgolunni frá. Vísir/Anton
Hitastig fór upp í 21,6 gráður í Reykjavík klukkan 15 í dag. Þetta er hæsta hitastig sem mælst hefur í höfuðborginni frá árinu 2008.

Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur segir að þetta einnig hafa verið í fyrsta sinn á árinu sem hitinn í höfuðborginni fari upp fyrir 20 gráður. Hitinn hafi þó mælst meiri annars staðar á landinu, meðal annars á Þingvöllum þar sem hann fór í 23,6 gráður.

Elín Björk segir að hitinn í höfuðborginni í dag skýrist meðal annars af því að það hafi verið nógu mikil norðan- og austanátt til að halda hafgolunni frá. Þess þurfi til að hitinn verði þetta mikill á þessu landsvæði.

Hún segir að morgundagurinn verði mjög svipaður, þó ívið svalari. „Hitinn ætti að verða hæstur á suðvesturhorninu og uppsveitum á Suðurlandi.“

Á Facebook-síðu sinni bendir Trausti Jónsson veðurfræðingur á að hitinn í Reykjavík hafi hæst komist í 21,3 gráður á síðasta ári, en hafi ekki farið upp fyrir 22 stig síðan 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×