Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Fjölnir - ÍBV 2-1 | Fjölnir marði sigur á Eyjamönnum | Sjáðu mörkin

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Fjölnismenn koma sér upp í miðja deild með 2-1 baráttusigri á Eyjamönnum í Grafarvogi í dag. ÍBV sitja eftir í bullandi fallbaráttu.

Fyrri hálfleikur var mjög bragðdaufur á Extra vellinum í dag, hvorugt lið náði að skapa sér nein færi að ráði og var staðan markalaus þegar gengið var til búningsherbergja.

Heimamenn voru hins vegar ekki lengi í gang í þeim síðari, Þórir Guðjónsson skoraði mark strax á 47. mínútu.

Eyjamenn gáfust hins vegar ekki upp og náðu að jafna leikinn aðeins ellefu mínútum síðar þegar gamli maðurinn Gunnar Heiðar Þorvaldsson skoraði eftir fyrirgjöf frá Arnóri Gauta Ragnarssyni.

Það hægðist aftur á leiknum eftir jöfnunarmarkið, en Ingimundur Níels Óskarsson hleypti lífi í leikinn þegar hann kom heimamönnum yfir á 84. mínútu. ÍBV sótti stíft undir lok leiksins, en allt varð fyrir ekki, lokatölur urðu 2-1.

Afhverju vann Fjölnir?

Þeir náðu að standast pressu Eyjamanna undir lokinn og sigla stigunum þremur í hús. Þeir voru hættulegri í sínum aðgerðum mest allan leikinn, þó Eyjamenn hefðu verið aðeins meira með boltann. Það lá mjög á marki þeirra síðustu tíu mínúturnar, en þeir héldu það út og fóru með sigur.

Hverjir stóðu upp úr?

Þórir Guðjónsson var sterkur í framlínu Fjölnismanna og skoraði fyrsta markið. Ægir Jarl Jónsson var einnig duglegur á miðjunni ásamt Birni Snæ Ingasyni.

Hjá ÍBV var Arnór Gauti Ragnarsson mjög sterkur fram á við og skapaði hvað mest fyrir Eyjamenn.

Hvað gekk illa?

ÍBV voru meira með boltann en náðu ekki að skapa sér mikið. Þeir voru ekki að fara nógu vel með boltann á síðasta þriðjungnum og þeim mun finnast þeir hefðu átt að fá meira út úr leiknum.

Hvað gerist næst?

Fjölnir á leik á fimmtudaginn gegn KR, leikur úr 10. umferð sem var færður vegna Evrópuþáttöku KR-inga.

ÍBV fá svo Stjörnuna í heimsókn til Eyja eftir viku.

Ágúst Gylfason.vísir/anton
Ágúst: Skrítinn fyrri hálfleikur

Ágúst Gylfason, þjálfari Fjölnis, var sáttur með sigur sinna manna í dag og talaði um að leikurinn hefði verið skrítinn.

„Baráttusigur. Þetta var erfiður leikur, mjög skrítinn fyrri hálfleikur. Lið sem voru að skora mikið af mörkum í síðustu umferð og annað liðið fékk mikið af mörkum á sig, þannig að þetta var mjög skrítinn fyrri hálfleikur, 0-0 og liðin voru ekkert að sækja mikið.“

„Ég talaði við strákana í hálfleik um að við ætluðum að vera meira direct og við komum inn í seinni hálfleikinn mjög direct og settum fljótlega á þá mark. Svo slökknaði aðeins á okkur og Vestmanneyingarnir komust inn í leikinn og spiluðu bara glimrandi bolta og við vorum bara í basil. Náðum sem betur fer að setja sigurmarkið á þetta, það var kærkomið,“ sagði Ágúst.

Það lá mikið á Fjölnismönnum undir restina af leiknum og Ágúst neitaði því ekki að það hefði farið um hann á hliðarlínunni:

„Jú, Jesús. Ég vissi ekki hvert ég ætlaði, þeir fengu færi eftir færi og boltinn datt bara til þeirra, sogaðist til þeirra. Við vorum með 10 menn inni í teignum og þá var erfitt að komast í gegnum þá. Þeir náðu sem betur fer ekki að skora á okkur.“

Kristján Guðmundsson er þjálfari ÍBV.vísir/eyþór
Kristján: Enn einn leikurinn þar sem við eigum að geta forðast tap

„Alltaf svekktur þegar við töpum, það er alveg ljóst,“ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV, eftir leikinn. „Þetta er svona enn einn leikurinn þar sem við eigum alveg að geta forðast tap, hefðum alveg getað tekið stig eða þrjú stig í þessum leik en við erum að tapa.“

„Við áttum að gera betur, fylgja leiknum betur eftir, eftir að við jöfnum. Það kemur ekki nógu mikill gír í okkur til að ná sigrinum og við fáum á okkur vont mark. Þarna undir lokin gat allt gerst.“

Frammistaða Eyjamanna var ekki alslæm í dag, en Kristján var ekki nógu sáttur með sína menn. „Mér finnst við of linir í flestum návígjum, töpum flestum návígjum og seinni boltum. Mér fannst við alls ekki nógu afgerandi í okkar leik.“

„Við skulum ekki hafa áhyggjur, en við höfum ekki mikið meiri tíma til þess að taka okkur á og fara að safna stigum, það er alveg ljóst,“ sagði Kristján, aðspurður um þá erfiðu stöðu sem ÍBV er komið í á botni deildarinnar.

Gunnar Heiðar: Það eru 30 stig eftir

Fyrstu viðbrögð Gunnars Heiðar Þorvaldssonar, sóknarmanns ÍBV, eftir leikinn voru að sjálfsögðu vonbrigði með tapið. „Það er leiðinlegt að tapa á þennan hátt. Mér fannst við vera líklegri þegar við skorum fyrsta markið, að við værum líklegri til að skora þetta seinna mark, en því miður þá finnst mér við fá svolítið aulaleg mörk á okkur og við þurfum að fara að gera eitthvað í því.“

„Við reyndum eins og við gátum en það gekk ekki upp í dag. Það er nóg eftir, en við megum ekki fara að tapa of mörgum leikjum í röð til að dragast of neðarlega, þá fer þetta að detta í hausinn á mönnum og menn fara að missa sjálfstraustið. Það eru 30 stig eftir og við þurfum að fara að ná í stig í næstu leikjum.“

„Ég hef engar áhyggjur af því,“ sagði Gunnar Heiðar aðspurður hvort hann hefði áhyggjur af falli í haust. „Við þekkjum þetta svolítið Vestmanneyingar, en það þýðir bara að hugsa um okkur, ekki hvað hin liðin eru að gera. Þegar við förum að gera það þá held ég við náum góðum úrslitum.“

Einkunnir:

Fjölnir: Þórður Ingason(M) - 6, Mario Tadejevic - 7, Igor Jugovic - 7 (88' Ivica Dzolan), Þórir Guðjónsson - 8 maður leiksins, Ægir Jarl Jónasson - 7, Birnir Snær Jónasson - 7 (70' Gunnar Már Guðmundsson - 6), Linus Olson - 6, Marcu Solberg Mathiasen - 6 (70' Ingimundur Níels Óskarsson - 7), Mees Junior Siers - 6, Torfi Tímoteus Gunnarsson - 7, Hans Viktor Guðmundsson - 6.

ÍBV: Derby Carrilloberduo(M) ('23 - Halldór Páll Geirsson - 7), Matt Garner - 6, Hafsteinn Briem - 7, Pablo Punyed - 8, Shahab Tabar - 6 (55' Mikkel Maigaard Jakobsen - 7), Sindri Snær Magnússon - 7, Jónas Tór Næs - 7, Arnór Gauti Ragnarsson - 8 (73' Kaj Leo í Bartalsstovu), Óskar Elías Óskarsson - 6, Felix Örn Friðriksson - 6, Gunnar Heiðar Þorvaldsson - 7.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira