Andrés sagði í blaðinu í gær ekkert benda til þess að eftirlitið hafi, þegar það ógilti kaup Haga á Lyfju fyrr í sumar, tekið tillit til áhrifanna af komu Costco.
Hagar hafa ekki ákveðið hvort ákvörðun eftirlitsins verður áfrýjað.

Hann segir það hlutverk samkeppnisyfirvalda að gæta almannahagsmuna og koma í veg fyrir að samrunar eigi sér stað sem skaði samkeppni og leiði þannig til hærra verðs eða verri þjónustu fyrir viðskiptavini. „Við verðum að vanda þetta mat og gæta þess að stefna ekki hagsmunum almennings í voða.“
Páll Gunnar segir að í ákvörðun eftirlitsins sé gerð grein fyrir ítarlegri rannsókn þess á áhrifum Costco. „Þar kemur fram að við öfluðum mjög víðtækra gagna, bæði frá samrunaaðilum og öðrum félögum sem starfa á dagvörumarkaði, í smásölu og heildsölu, en mörg þeirra lýstu yfir áhyggjum af samrunanum.
Við öfluðum meðal annars áætlana frá Costco og Högum og öðrum keppinautum um innkomu Costco, upplýsinga um reynslu af opnun Costco annars staðar, tölulegra upplýsinga um rekstur Costco og veltu á fyrstu fjórum vikum starfseminnar og eins tölulegra upplýsinga frá öðrum félögum á markaðinum sem gáfu þá til kynna hver raunveruleg áhrif Costco voru á sölu í einstökum vöruflokkum. Við skoðuðum auk þess upplýsingar um veltu annarra erlendra verslanakeðja sem hafa hafið starfsemi hér á liðnum árum.
Á grundvelli gagnanna sem við öfluðum stilltum við upp mögulegum sviðsmyndum af áhrifum Costco og byggðum okkar ályktanir á þeim.“
Hann tekur fram að Costco hafi ekki hafið starfsemi hér á landi fyrr en undir lok þess lögbundna tímafrests sem eftirlitið hafði til þess að ljúka afgreiðslu málsins. „Þannig að það var í raun og veru ekki fyrr en undir lok frestsins sem við gátum aflað upplýsinga um raunverulega reynslu af fyrstu vikum starfsemi Costco. Það verður síðan að koma í ljós hver þróunin verður.
Það liggur í hlutarins eðli að þetta verður skoðað aftur. Það er augljóst að við rannsókn á öðrum samrunum, sem tengjast þeim mörkuðum sem Costco starfar á, munum við afla gagna að nýju og höfum þá lengri reynslu til þess að byggja mat okkar á.“