Innlent

Rannsókn lögreglu á skammbyssumálinu í Hafnarfirði að ljúka

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Maðurinn á myndinni er sá sem talið er að hafi verið ógnað með skammbyssu við Ölhúsið í Hafnarfirði fyrr í mánuðinum.
Maðurinn á myndinni er sá sem talið er að hafi verið ógnað með skammbyssu við Ölhúsið í Hafnarfirði fyrr í mánuðinum. mynd/lögreglan
Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á svokölluðu skammbyssumáli sem kom upp í Hafnarfirði fyrr í mánuðinum er að ljúka.

Að minnsta kosti þrír menn hafa verið handteknir í tengslum við málið en enginn hefur sætt gæsluvarðhaldi vegna þess. Lögreglan telur að manni hafi verið ógnað með skammbyssu við Ölhúsið í Hafnarfirði síðdegis föstudaginn 18. ágúst.

Tveir menn voru handteknir daginn eftir í Borgartúni af sérsveit ríkislögreglustjóra en hvorugur þeirra var sá sem lögreglan taldi að hefði verið með byssuna. Maðurinn sem grunaður er um það var því handtekinn í aðgerð sérsveitarinnar og lögreglu í Hafnarfirði í liðinni viku. Hann hefur áður komið við sögu lögreglu.

Þá óskaði lögreglan eftir því á þriðjudag í síðustu viku að ná tali af manninum sem ógnað var með byssunni og tveimur dögum síðar óskaði lögreglan svo eftir að ná tali af manni sem staddur var við Ölhúsið klukkan 18:13 föstudaginn 18. ágúst.

Kom fram í tilkynningu lögreglu að hann hefði ekið hvítum smábíl á staðinn og í gær tilkynnti lögreglan síðan að maðurinn væri kominn í leitirnar.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni er maðurinn sá sem talið er að hafi verið ógnað með skammbyssu við Ölhúsið. Ekki er talið að hann og maðurinn sem á að hafa ógnað honum þekkist.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×