Hlynur Bæringsson, fyrirliði íslenska körfuboltalandsliðsins, hefur farið í margar landsliðsferðirnar en þó aldrei eins flott klæddur og í morgun.
Íslensku strákarnir flugu út á EM í morgun og mættu þeir allir klæddir glæsilegum jakkafötum frá Herragarðinum. Það var vel tekið á móti strákunum í Leifsstöð og þeir gengu stoltir um borð í vél Icelandair til Helsinki.
„Það var frábær tilfinning að labba svona inn í Leifsstöð. Það var reyndar svolítið erfitt í morgun þegar maður var að passa að sulla ekki niður á sig. Maður er vanur að vera á inniskóm og stuttbuxum á leiðinni út,“ sagði Hlynur Bæringsson í léttum tón þegar blaðamaður Vísis hitti hann við hliðið.
„Þetta er vissulega skemmtileg tilbreyting og eitthvað sem ég bjóst ekki við að fá að upplifa,“ sagði Hlynur sem hefur verið í íslenska landsliðinu frá því í byrjun aldarinnar.
Hann hafði engar áhyggjur af fötunum í fluginu sjálfu. „Það er allt í lagi þegar maður eru kominn upp í vélina því þá tekur enginn eftir þessu,“ sagði Hlynur brosandi.
„Ég hlakka til að koma til Helsinki,“ sagði Hlynur að lokum.
