„Liðið hefur átt góða helgi, Sebastian var greinilega reiðubúinn að pressa og ég kom hingað til að sækja sigur og ég gerði það,“ sagði Hamilton á verðlaunapallinum. Hann vann þar sína 58. keppni í Formúlu 1 í dag í 200 keppnum.
„Þetta var spennandi og gaman, við vorum að vonast eftir mistökum frá hvor öðrum en það kom ekki. Ég var nálægt og annað hvort ekki nógu nálægt eða of nálægt eftir endurræsinguna. Þar var þetta bara spyrna að beygjunni og ég var á utanverðunni og tapaði þeirri baráttu,“ sagði Vettel á verðlaunapallinum.
„Ég vissi að það kæmi tækifæri með þessum öryggisbíl og það er frábært að hafa nýtt það svona vel. Það er leitt að Max [Verstappen] féll út snemma en ég vil þakka áhorfendunum sem eru aðallega hollenskir fyrir að fara ekki bara þegar hann datt út,“ sagði Daniel Ricciardo á verðlaunapallinum. Hann varð þriðji í dag á Red Bull bílnum.
„Fyrra samstuðið á milli okkar var mér að kenna að öllu leiti. Ég valdi ranga stillingu fyrir ræsinguna. Í seinni snertingunni er mín skoðun sú að Esteban [Ocon] hafi verið full bjartsýnn, hann hefði getað tekið fram úr örlítið seinna á hringnum. Við þurfum að tala saman og hreinsa loftið og halda áfram. Við töpuðum mjög mikið af stigum í dag,“ sagði Sergio Perez sem hætti keppni í dag á Force India.

„Við áttum smá möguleika eftir að öryggisbíllinn kom út og við reyndum hvað við gátum. Því miður fór þetta ekki betur,“ sagði Maurizio Arrivabene, liðsstjóri Ferrari.
„Við áttum ekki últra-mjúk dekk og okkur fannst mjúk dekk vera besta valið í stöðunni. Ferrari kom okkur á óvart hérna um helgina. Þeir hafa greinilega sótt á okkur. Við bjuggumst við að hafa meira svigrúm gagnvart þeim. Nú þurfum við að einbeita okkur að því að ná framförum á hægari brautum sem hafa hentað Ferrari betur, til að mynda Singapúr,“ sagði Toto Wolff, liðsstjóri Mercedes.