WOW air hefur bætt við fjórum nýjum áfangastöðum í Bandaríkjunum, St Louis, Cincinnati, Cleveland og Detroit. Allar borgirnar eiga það sameiginlegt að vera í miðvesturhluta Bandaríkjanna.Fram kemur í tilkynningu frá félaginu að flogið verði til borganna fjórum sinnum í viku í nýjum Airbus A321 vélum flugfélagsins.
Þá mun WOW air einnig hefja daglegt flug til Stansted-flugvallar í London næsta vor og flýgur þá á tvo flugvelli í London; London Gatwick Airport og London Stansted Airport.
„Það er með stolti sem við kynnum til leiks fjóra nýja áfangastaði í Bandaríkjunum, hver öðrum meira spennandi. Þessi mikla aukning á umsvifum okkar er í takt við áður gefin loforð um að gera sem flestum kleift að ferðast yfir hafið á sem allra bestu kjörum,“ er haft eftir Skúla Mogensen eiganda og forstjóra WOW air í tilkynningunni.
Ekki eru nema þrír dagar síðan Icelandair tilkynnti að félagið myndi hefja flug til Cleveland. Nú hefur WOW fylgt í kjölfarið en greiningaraðilar telja að íslensku flugfélögin hugsi sér nú gott til glóðarinnar eftir að Air Berlin tilkynnti um gjaldþrot sitt á dögunum.
Wow Air og Icelandair reyni þannig að fylla tómarúmið sem þýska flugfélagið skilur eftir sig, ekki síst í flugi frá Evrópu til Bandaríkjanna með viðkomu á Íslandi.
Wow bætir við fjórum borgum í Bandaríkjunum

Tengdar fréttir

Í fyrsta sinn sem Icelandair eltir Wow?
Talið er ljóst að íslensku flugfélögin ætli að nýta sér brotthvarf hins gjaldþrota Air Berlin.