Erlent

Trump stefnir á skattabreytingar

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump í Springfield í dag.
Donald Trump í Springfield í dag. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ætlar sér að gera umfangsmiklar breytingar á skattakerfi Bandaríkjanna. Hann sagði það nauðsynlegt að lækka skattbyrðina á verkafólk og fyrirtæki svo hægt væri að fjölga störfum. Þá þrýsti hann á þingmenn að standa sig í stykkinu.

Forsetinn og Repúblikanar hafa enn ekki komið einum af sínum stóru málum í gegnum báðar deildir þingsins og hefur þrýstingur á að slíkt gerist aukist samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.



„Ég er tilbúinn til að vinna með þinginu til að koma þessu í verk og ég vil ekki að þingið valdi mér vonbrigðum. Skiljið þið? Skiljið þið? Þingið. Ég held að þingið stefni á endurkomu,“ sagði Trump við starfsmenn verksmiðju í Springfield í Missouri í dag.

Frumvarp um skattalækkanir er enn í smíðum og Trump sagði ekkert um hverju hann stefndi að öðru en að lækka skatta á fyrirtæki úr 35 prósentum í fimmtán. Þingmenn hafa sagt að þeir myndu telja það heppni að geta lækkað skattinn í 25 prósent.

Samkvæmt frétt Reuters telja sérfræðingar ólíklegt að þingið geti lokið við skattabreytingar á þessu ári. Þar að auki þykir ólíklegt að repúblikönum muni takast að breyta kerfinu. Þess í stað þykir líklegra að um einfalda skattalækkun verði að ræða.



Yfirlýsingar forsetans varðandi skattalækkanir hafa verið gagnrýndar fyrir að þjóna hagsmunum þeirra ríkustu og fyrirtækja. Demókratar hafa gefið út að þeir muni ekki styðja við breytingar sem hagnist þeim allra ríkustu í Bandaríkjunum.



Þingmenn beggja flokka í Bandaríkjunum eru sammála um að nauðsynlegt sé að einfalda skattakerfi ríkisins.

Samkvæmt frétt Washington Post hafa sérfræðingar áætlað að miðað við það sem Trump hefur sagt um sínar áætluðu breytingar muni um 40 prósent af skattalækkunum fara til eins prósents Bandaríkjamanna. Það er þeirra ríkustu.


Tengdar fréttir

Kalt stríð sagt ríkja á milli Trump og McConnell

Samband Donald Trump, forseta Bandaríkjanna og Mitch McConnell, leiðtoga Repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings, er sagt vera komið á það stig að þeir hafi ekki talast við vikum saman




Fleiri fréttir

Sjá meira


×