Innlent

23,4°C á Seyðisfirði í dag

Kjartan Kjartansson skrifar
Rauða línan sýnir þróun hitastigs á Seyðisfirði í dag.
Rauða línan sýnir þróun hitastigs á Seyðisfirði í dag. Veðurstofa Íslands
Óvenjuhlýtt hefur verið á landinu í dag og í gær. Mest fór hitinn upp í 23,4°C á Seyðisfirði í dag. Meðalhitinn í höfuðborginni hefur verið tæpum tveimur gráðum fyrir ofan meðallag seinna hluta 20. aldar.

Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur, vekur athygli á sumaraukanum á Seyðifirði á Twitter. Hæstur var hitinn þar eftir hádegið og til rúmlega 15 samkvæmt línuriti sem hún birtir í tísti sínu.

Bætir hún við að hitastigið á Seyðifirði í dag sé hærra en það sem mældist í Reykjavík í allt sumar.

Haustið ekki komið enn

Trausti Jónsson, veðurfræðingur, skrifar á vefsíðu sinni að fyrrihluti septembermánaðar hafi almennt verið hlýr á landinu. Hitinn í Reykjavík hafi verið 1,9 stigum fyrir ofan meðallag áranna 1961-1990 og 0,2 fyrir ofan meðallag síðustu tíu ára.

Óvenjuhlý hæð er nú austan við landið en Trausti segir að hún muni ekki staldra lengi við. Kaldara loft muni sækja að landinu úr vestri eftir helgina.

Samkvæmt skilgreiningu hans sjálfs á upphafi haustsins, sem miðast við daglegan landsmeðalhita í byggð, er það ekki enn skollið á. Ekki þurfi þó marga kalda daga til að haustið detti inn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×