„Það eru flöt tún hérna sem liggja að Jökulsá á Fljótsdal. Þetta er kallað Valþjófsstaðanes og yfir það liggur klofhátt vatn að stórum hluta,“ segir Agnar Benediktsson í Björgunarsveitinni jökli í samtali við Vísi.
Töluverð úrkoma hefur verið á Suðausturlandi og Austfjörðum og hafa orðið miklir vatnavextir í ám og lækjum vegna þess. Á vef Veðurstofunnar má sjá að rennsli í Jökulsá í Fljótsdal hefur nærri þrefaldast á örfáum klukkutímum við Valþjófsstaðanes. Þá hefur vatnshæð hækkað um nærri einn og hálfan metra.

Agnar segir ljóst að tugir kinda hafi drepist en í samtali við Austurfrétt sagði Friðrik Ingi Ingólfsson, bóndi á Valþjófsstað 2, að um 200 lömb hafi átt að vera á túnunum.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Egilstöðum hefur rignt mikið og er talið líklegt að þjóðvegur 1 um Skriðdal við Skriðuvatn lokist vegna vatnavaxtanna.
Þá hefur björgunarsveitin á Höfn í Hornafirði aðstoðað bændur á Volaseli í Lóni í Austur-Skaftafellsýslu við að bjarga fé frá drukknun eftir mikla vatnavexti. Þar hefur einnig rignt mikið.
Ljóst er að úrhellið hefur haft áhrif víðar á Austurlandi en í Fljótsdal.Að neðan má sjá myndir sem Ingi Ragnarsson, tók af Hamarsá í Hamarsfirði í ham í úrhellinu á Austurlandi. Smellið á örvarnar til að fletta eða flettið með fingrunum í snjallsíma.