Körfubolti

Var áður McCarthy en er nú Gunnarsdóttir og vill læra íslensku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristen Denise McCarthy með íslenska fánann á landsleik í Ungverjalandi.
Kristen Denise McCarthy með íslenska fánann á landsleik í Ungverjalandi. Vísir/ÓskarÓ
Kristen Denise McCarthy mætir aftur til leiks í Domino´s deild kvenna í körfubolta í Stykkishólmi í kvöld þegar Snæfell tekur á móti Íslands- og bikarmeisturum Keflavíkur.

Þetta verður fyrsti leikur Kristen Denise McCarthy á Íslandi síðan að hún hjálpaði Snæfell að vinna Íslandsmeistaratitilinn vorið 2015.

Kristen Denise McCarthy var þá með 24 stig, 6 fráköst, 5 stoðsendingar, 3 stolna bolta og 3 varin skot í síðasta leiknum sem var einmitt á móti Keflavík.

Eftir leikinn þá hélt Kristen upp á Íslandsmeistaratitilinn með því að syngja lagið Í síðasta skipti með Friðriki Dór.

Jón Björn Ólafsson á Karfan.is fékk Kristen til að syngja lagið og tók það upp. Upptöku hans má sjá hér fyrir neðan en Kristen syngur þarna á íslensku eins og ekkert sé.





Kristen hefur alltaf haldið tengslum við Snæfellsstelpurnar og Ísland og það kom fram í Körfuboltakvöldinu í gær að hún hafi sett það inn í samninginn sinn að fá kennslu í íslensku í vetur.

Leikmaðurinn Kristen McCarthy er líka frábær en í 35 leikjum sínum á Íslandsmótinu 2014-15 þá var hún með 28,2 stig, 12,8 fráköst og 3,2 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Það vakti líka athygli að þegar stelpurnar voru látnar kynna sig fyrir grafíkina í Körfuboltakvöldinu í vetur þá kynnti Kristen sig ekki sem Kristen Denise McCarthy heldur sem Kristen Gunnarsdóttir.?

Leikur Snæfells og Keflavíkur hefst klukkan 19.15 og verður einnig í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.  Aðrir leikir kvöldsins eru Haukar-Stjarnan, Valur-Breiðablik og Njarðvík-Skallagrímur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×