Innlent

Vopnaður og vímaður á 130 kílómetra hraða

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vopn fannst í bílnum
Vopn fannst í bílnum Vísir/eyþór
Lögreglan stöðvaði ökumann sem mælst hafði á 130 km/klst hraða á Reykjanesbraut í Garðabæ um klukkan 21 í gærkvöldi. Í ljós kom að ökumaðurinn var ekki einungis undir áhrifum fíkniefna heldur einnig réttindalaus. Við öryggisleit á ökumanninum á einnig að hafa fundist „stunguvopn“ en því er ekki nánar lýst í skeyti lögreglunnar nú í morgun.

Var hann því handtekinn og færður á lögreglustöðina í Hafnarfirði þaðan sem hann var laus eftir sýnatöku.

Um svipað leyti fékk lögreglan tilkynningu um að ráðist hafi verið á starfsmann veitingastaðar í miðborg Reykjavíkur. Ofbeldisseggurinn var á bak og burt þegar lögreglumenn komu á svæðið en segja þeir að vísbendingar liggi fyrir um hver þarna var á ferli. Meiðsl þolandans eru jafnframt sögð minniháttar.

Þá voru einnig hafðar hendur í hári fíkniefnasala sem hafði í fórum sínum „töluvert“ magn af vímuefnum og lyfseðilsskyldum lyfjum. Að lokinni skýrslutöku var hann laus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×