Myllusetur, útgáfufélag Viðskiptablaðsins, hefur keypt viðskiptatímaritið Frjálsa verslun.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Myllusetri og segir að framtíðarútgáfa Frjálsrar verslunar sé í mótun enda stutt síðan gengið var frá kaupunum. Fréttablaðið greindi frá því í sumar að viðræður um kaup stæðu yfir.
Í tilkynningunni kemur fram að auk þess að gefa út tímarit hefur Frjáls verslun gefið út bók um 300 stærstu fyrirtæki landsins sem mun koma út í næsta mánuði.
„Myllusetur gefur út Viðskiptablaðið og fjölda sérblaða sem því tengjast. Í Viðskiptablaðinu er lögð áhersla á fréttir úr viðskiptalífinu og umfjöllun um efnahags- og þjóðmál. Auk frétta eru í blaðinu fjölbreytt viðtöl, úttektir og pistlar. Undir merkjum Viðskiptablaðsins eru einnig gefin út tvö tímarit á hverju ári en það eru Áramót og Frumkvöðlar.
Myllusetur gefur einnig út Fiskifréttir, sem er sérblað um sjávarútvegsmál. Undir merkjum Fiskifrétta eru gefið út eitt veglegt tímarit á haustmánuðum. Þá kemur sérstakt Kvótablað út í upphafi hvers fiskveiðiárs og bókin Íslenska sjómannaalmanakið er gefin út í lok hvers árs.
Auk þess að gefa út prentmiðla heldur Myllusetur úti vefmiðlunum vb.is og fiskifréttir.is,“ segir í tilkynningunni.
Forsvarsmenn Heims hafa um nokkurt skeið leitað nýrra eigenda að Frjálsri verslun. Þau systkini Jóhannes, Jón og Steinunn tóku við rekstri félagsins af föður sínum, Benedikt Jóhannessyni fjármálaráðherra, í lok síðasta árs.
Útgefandi Viðskiptablaðsins kaupir Frjálsa verslun
