Einnig verður fyrirtæki veitt viðurkenningu fyrir Bestu fjárfestingu í hönnun, en nafn fyrirtækisins verður gefið upp á verðlaunaafhendingunni.
Dagskráin hljóðar svo:
20:30- Húsið opnar
21:00- Afhending Hönnunarverðlauna Íslands
22:00- Babies Ball
Allir eru velkomnir á þennan viðburð, en farið er fram á snyrtilegan klæðnað.
Hér er forval dómnefndar:

Listahátíðin Cycle er skapandi vettvangur fyrir samtal tilraunakenndrar samtímatónlistar og myndlistar þar sem listamönnum gefst kostur á að ræða saman, gera tilraunir og læra hver af öðrum. Döðlur hönnuðu merki og heildarásýnd hátíðarinnar og sækja þar í hugmyndafræði hennar um hringrás hugmynda.

Marshall-húsið var upphaflega byggt árið 1948 sem síldarbræðsla er nýr vettvangur lista við gömlu höfnina í Reykjavík. Arkitektarnir Ásmundur Hrafn Sturluson og Steinþór Kári Kárason, eigendur Kurt og Pí stofunnar, hafa leitt hönnun verksins í samstarfi við ASK arkitekta.

Reitir Workshop er alþjóðlegt samstarfsverkefni þeirra Ara Marteinssonar hönnuðar og Arnars Ómarssonar myndlistarmanns. Leiðarvísirinn Reitir - Tools for Collaboration býður lesendum að stela hugmyndum vinnusmiðjanna og þróa áfram.

Í kjölfar samkeppni um hönnun orlofshúsa Bandalags háskólamanna í Brekkuskógi í Bláskógabyggð voru tvö þeirra byggð eftir hönnun PKdM árið 2015. Húsin einkennast af ríkri efniskennd með umlykjandi landslagsmótun, hlöðnum veggjum, kolaðri timburklæðningu og grasi grónu þaki.

Gígurinn Saxhóll er vinsæll ferðamannastaður í þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Í gegnum tíðina hafði myndast slóði sem með auknum ágangi ferðamanna var kominn að þolmörkum. Landslag fékk það verkefni að hanna varanlegan stíg sem takmarkaði umgang ferðamanna við ákveðið svæði.