Innlent

Eins og „árás“ hafi verið gerð á húsið

Samúel Karl Ólason skrifar
Skemmdirnar urðu miklar.
Skemmdirnar urðu miklar.
Tveir stærðarinnar límtrésbitar fuku á hús í Borgarnesi í gærkvöldi og ollu þar töluverðum skemmdum. Íbúar hússins segja lætin hafa líkst árás og segist Sigurgeir Óskar Erlendsson aldrei hafa upplifað annað eins.

Sigurgeir segir að bitarnir og annað brak hafi fokið frá nærliggjandi nýsmíði. Þetta hafi komið niður á bílinn hjá honum, húsið og bílskúr.

„Þetta eru rosa skemmdir,“ sagði Sigurgeir í samtali við Vísi. Hann sagði að í rauninni hefði heilt horn fokið af húsinu. Þar af hafi tveir um átta metra langir límtrésbitar, sem Sigurgeir giskar á að séu þrjú til fjögur hundruð kíló hvor, tekið á loft og lent á húsinu.

„Þetta kom niður á bílinn hjá mér og hann er handónýtur. Húsið og þakið á bílskúrnum er ónýtt. Nýr bíll konunnar er skemmdur. Það er alveg hellingur.“

„Maður bara trúir þessu ekki. Það er alveg ótrúlegt að sjá þetta og hvernig þetta hefði getað farið.“

Sigurgeir var í húsinu þegar þetta gerðist og hann segir lætin hafa verið mikil.

„Þetta er alveg ótrúlegt hvað þetta veður getur gert. Maður hefur aldrei upplifað svona áður. Það var bara eins og það hefði verið gerð árás í gærkvöldi.“

Veðurstofa Íslands er ekki með veðurathugunarstöð í Borgarnesi svo ekki liggja fyrir upplýsingar um vindhraða þar í gærkvöldi. Hins vegar er ein stöð á Hvanneyri og önnur undir Hafnarfjalli. Á Hvanneyri var meðalvindur um 20 metrar á sekúndu í gær og fóru vindhviður upp í 30 metra. Sagan er þó önnur á Hafnarmelum undir Hafnarfjalli þar sem kviður fóru yfir 60 metra á sekúndu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×