Nú þegar mesta óveðrið er gengið niður er þó enn gul viðvörun í gildi á þremur landsvæðum.
Spáð er suðaustanstormi, með vindhraða á bilinu 18 til 25 m/s, á Norðurlandi eystra og á Austurlandi að Glettingi. Þar geta vindhviður farið yfir 35 m/s og búast má við samgöngutruflunum á síðarnefnda svæðinu.
Þá má búast við suðaustanhvassviðri eða -stormi á Austfjörðum og talsverðri snjókomu eða slyddu um tíma. Ætla má að úrkoman verði að rigningu þegar líða tekur á daginn. Þar má jafnframt búast við einhverjum samgöngutruflunum. Hiti verður á bilinu 0 til 7 stig, hlýjast syðst, en kólnar seinni partinn.
Veðurstofan gerir ráð fyrir því að veðrið hafi að mestu gengið yfir upp úr hádegi. Þá er rafmagn jafnframt komið á alls staðar þar sem það fór af í gærkvöldi.
Það snýst svo í norðan og norðvestan 8-13 m/s með éljum á morgun. Hiti kringum frostmark.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag:
Norðvestlæg átt, víða 8-13 m/s og rigning eða slydda SA-til, en annars skúrir eða dálítil él. Hægari og úrkomulítið með kvöldinu. Hiti 0 til 5 stig S-til að deginum, en annars vægt frost.
Á miðvikudag:
Norðlæg átt, 10-15 m/s og slydda eða snjókoma á S-verðu landinu, en dálítil él fyrir norðan. Hiti kringum frostmark.
Á fimmtudag:
Norðvestlæg átt, strekkingur og él NA-til, annars mun hægari og stöku él, en léttskýjað SA-til. Frost 1 til 6 stig, en frostlaust við sjávarsíðuna yfir daginn.
Á föstudag:
Vestlæg átt með éljum, en bjartviðri eystra. Kólnandi veður.
Á laugardag:
Norðvestlæg átt og él, en léttskýjað SA-til. Kalt í veðri.
Á sunnudag:
Útlit fyrir hægan vind, bjartviðri og talsvert frost um land allt.
Enn blæs um Austfirði
Stefán Ó. Jónsson skrifar
